145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er svolítið skrýtin umræða hér, það má líkja henni við málflutninginn sem stjórnarandstaðan notar í fundarstjórn forseta. Hér er greinilega brostin á mikil taugaveiklun. Niðurstöður komu úr skoðanakönnun í morgun og ég veit að sál vinstri manna þolir illa slæmar skoðanakannanir, en það er bara svo að hér hefur staðið yfir málþóf síðan í haust um að færa eigi til stjórnskipulega stöðu Þróunarsamvinnustofnunar. Það er ótrúlegt að öll stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig, líka þingmenn nýju flokkanna sem komu hingað inn og voru kosnir til að breyta vinnubrögðum á Alþingi, láti hv. þm. Össur Skarphéðinsson draga sig á asnaeyrunum inn í þetta mál og í ljósi þess að fara á með það mál (Forseti hringir.) í gegn fyrir áramót er komið málþóf í fjárlögin, Íslandsmet. Það er nú þegar orðið því að (Forseti hringir.) atkvæðagreiðsla var inni í tölunum frá síðasta Íslandsmeti.