145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég varð ekki var við það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar ávörpuðu fundinn sem var hér fyrir utan Alþingishúsið í dag. Þar voru mættir félagar úr Öryrkjabandalaginu til að leggja áherslur á kröfur sínar en skilaboðunum var engu að síður komið áleiðis til þessa hóps og ýmissa annarra sem eiga lífsafkomu sína undir fjárframlögum úr ríkissjóði gegnum almannatryggingar. Ég ætla ekki að bjóða ykkur neitt, sagði hæstv. forsætisráðherra hér. Hann var að vísu ekki að tala beint til þessara hópa heldur til stjórnarandstöðunnar en um þetta snýst slagurinn á þingi nú. Um þetta hefur þessi langa umræða um fjárlögin fyrst og fremst staðið, hvað eigi að bjóða því fólki sem var hér fyrir utan og öðrum sem eru í svipaðri stöðu. Ráðherrann sagði og það var alveg skýrt: Ég ætla ekki að bjóða ykkur neitt. Við vorum hins vegar milliliðurinn, stjórnarandstaðan, sem átti væntanlega að flytja þessi skilaboð.

Þetta skýrir að sjálfsögðu að hluta hina löngu umræðu sem þegar er orðin um fjárlögin. Fólki er mikil alvara, bæði hér innan dyra í stjórnarandstöðunni og í samfélaginu almennt að það verði gerðar breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Við eigum líka enn eftir að samþykkja fjáraukalögin. Þar setti stjórnarandstaðan sameinuð fram tillögu um að settir yrðu 6,6 milljarðar, hygg ég að það hafi verið, til að hækka örorkubætur og bætur til aldraðra afturvirkt eins og almennt gildir á vinnumarkaði í kjarasamningum. Þetta þykja mönnum vera réttlátar kröfur og verð ég að endurtaka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að þetta er ekki bara spurning um réttlæti heldur er þetta líka spurning um skynsemi vegna þess að þetta eykur jöfnuð í samfélaginu, gerir tekjulitla hópa aflögufærari, peningarnir munu streyma áfram út í hagkerfið og það gerist þá tvennt í senn; ánægjan dafnar og vex í samfélaginu enda munu allir hagnast á því að framfylgt sé stefnu héðan úr þessum sal sem fólki þykir vera réttlát og réttmæt. Þetta skýrir fyrst og fremst þá löngu umræðu sem hefur orðið um fjárlögin.

Það væri hægt að staldra við ýmislegt sem hér hefur verið sagt síðustu klukkutímana um málið og m.a. úr ræðu formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páls Árnasonar um örorkubætur og þróun örorkunnar. Ég kom upp í andsvari við hann og fékk hann til að skýra nánar hugmyndir sínar þar að lútandi og ég tek fyllilega undir allt það sem hann sagði. Hann vék að umræðu í Evrópu sem væri að færast í svipað mót af hálfu hægri manna og við heyrðum dæmi um hjá hæstv. fjármálaráðherra í útvarpsþætti á helginni og svo aftur ítrekað í morgun og voru vægast sagt óhugnanlegar vangaveltur í mínum huga.

Þótt ekki væri nema fyrir það eitt að ræða þennan þátt fjárlaganna, hlutskipti öryrkja og þeirra sem hafa lægstu tekjur í þjóðfélaginu, þá væri það þess virði að standa hér lengi og ræða málið til að komast í kallfæri við stjórnvöld og fá þau til að endurskoða ákvarðanir sínar. Það er aldrei of seint að gera það. Ég er ekki einn af þeim sem telja að málþóf sé alltaf af hinu illa. Það hefur oft orðið til góðs. Ég minnist þess þegar okkur tókst í þessum sal, þá var ég í stjórnarandstöðu, að koma í veg fyrir að þáverandi ríkisstjórn einkavæddi vatnið og tæki lagabálk um vatnið til róttækrar endurskoðunar með einkaeignarrétt að leiðarljósi. Menn sögðu náttúrlega þá eins og alltaf er sagt í allri umræðu sem er umdeilanleg að ekki væri verið að breyta nokkrum sköpuðum hlut, menn væru að túlka eða færa þau lög sem verið hefðu í gildi frá því um í byrjun aldarinnar síðustu, 1919 held ég að það hafi verið, til samræmis við dómapraxís aldarinnar og það má vera rétt að því leyti að áhersla á einkaeignarrétt var að aukast á þessu tímabili og menn vildu nota tækifærið til að herða enn á þeirri skrúfu.

Annað mál sem við ræddum lengi var mál sem hefur verið nokkuð til umfjöllunar núna, það er Ríkisútvarpið. Og ég held að þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi gert tvær eða þrjár tilraunir um breytingar á Ríkisútvarpinu, fyrst mjög grimmileg einkavæðing, hrein og klár og hrá einkavæðing og síðan var dregið úr slíkri hugsun og settar inn einhverjar lýðræðislegar tengingar inn í þessa stofnun sem við fjármögnum öll saman og er fullkomlega eðlilegt að sé gert. Allar þær breytingar voru til góðs. Ég held að það deili enginn um það, enginn, að þær hafi verið til góðs, þ.e. breytingar á frumvarpinu eins og það lá fyrir upphaflega. Hins vegar voru breytingarnar í þá veru að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi ekki skynsamlegar að mínum dómi. Reyndar held ég að þetta opinbera hlutafélagaform hafi ekki reynst vel og eigi að taka alfarið til endurskoðunar. Hlutafélag er eðli máls samkvæmt félag um hluti en ekki einn hlut eins og er í opinberu hlutafélagi og þeir góðu kostir sem kunna að vera við hlutafélagaformið nýtast ekki í opinberu hlutafélagi þar sem einn hlutur er kominn undir ákvörðunarvaldi eins aðila, ráðherra í viðkomandi málaflokki. Reyndar er þetta allt komið inn til fjármálaráðuneytisins núna eftir að breytingar hafa verið gerðar á lögum í þá átt að líta á alla starfsemi sem er færð undir opinbert hlutafélagaform sem fyrirtækjastarfsemi, starfsemi fyrirtækis, en ekki eins og í tilviki Ríkisútvarpsins sem menningarstofnun sem áður heyrði undir menntamálaráðuneytið.

Við höfum rætt talsvert um heilbrigðisþjónustuna líka og þar sýnist sitt hverjum. Ég tók það mál hér upp um daginn eftir að Fréttablaðið birti mikla fyrirsögn um að til stæði að taka upp það form í Reykjavík á vegum heilsugæslunnar í Reykjavík að fjármagn skyldi fylgja sjúklingi og vitnaði til þess að lækningaforstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefði sagt við ráðningu sína eða skömmu eftir hana í lok síðasta árs að hann sæi fyrir sér markaðsvætt kerfi sem starfaði undir vængjum Samkeppnisstofnunar. Þetta kom allt upp í hugann þegar ég sá Fréttablaðið og þar var Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að tjá sig um spennandi samkeppnishvata sem verið væri að innleiða í heilbrigðiskerfið. Ég fór hins vegar rangt með að einu leyti. Ég sagði að hæstv. fjármálaráðherra hefði skipað Odd Steinarsson forstöðumann lækningasviðs hjá heilsugæslunni. Það er rangt. Það er framkvæmdastjóri heilsugæslunnar sem skipar hann þannig að þetta var rangt og ég biðst velvirðingar á því og ég leiðrétti það hér með. Það var líka rangt sem ég sagði að hann væri framkvæmdastjóri, ég hygg ég hafi sagt það hér að hann væri framkvæmdastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en eins og ég hef sagt hér núna, þá er hann lækningaforstjóri. Ég held að það sé titillinn, alla vega er það inntakið í því starfi sem hann gegnir. Það breytir því ekki að inntakið í því sem ég var að segja er hið sama og ég vék að því að þeir hefðu þarna sýnilega samræmt göngulag, hæstv. heilbrigðisráðherrann og þessi ágæti maður, framkvæmdastjóri lækningasviðsins, þeir væru að tala mjög á sama veg, að fara með heilsugæsluna í svipaðan farveg þar sem fjármagn fylgir sjúklingi.

Nú má til sanns vegar færa að við tölum fyrir því að fjármagnið sé nýtt þar sem sjúklingarnir eru og þar sem þörfin er mest og í þeim skilningi mætti færa rök fyrir því að þetta sé nákvæmlega það sem við sækjumst eftir. En það er allt annar handleggur en að gera það að kerfislægu stýritæki. Það er allt annar hlutur. Ef ríkisstjórnin og stjórnvöld væru sjálfum sér samkvæm og létu fjármagnið fylgja sjúklingunum og svöruðu þörfinni þar sem hún væri mest og þar sem hún væri fyrir hendi, væri verið að auka framlag til Landspítalans í miklu ríkari mæli en gert er. Okkur er sagt af hálfu stjórnenda Landspítalans að vegna fjölgunar og öldrunar í íslensku samfélagi þá aukist þjónustuþörfin hjá Landspítalanum árlega sem nemur 1,7%. Það þýðir að bara til að svara þeirri þörf þyrfti framlagið til Landspítalans að aukast um 930, 940 millj. kr. Það hefur ekki verið gert.

Annað sem ég vil vekja athygli á er að tekið er tillit til kostnaðar af kjarasamningum þegar fjármagn er veitt eins og við gerum núna samkvæmt fjáraukalögunum til Sjúkratrygginga vegna kjarasamninga við lækna í einkarekstri. En þegar Landspítalinn eða forstöðumenn Landspítalans biðja um samsvarandi hækkað framlag vegna kostnaðarsamra kjarasamninga innan veggja Landspítalans þá er ekki orðið við því, alla vega ekki í þeim mæli sem þyrfti að vera. Ég heyrði viðtal í Ríkisútvarpinu í kjölfar þess að grein eftir viðkomandi birtist í Morgunblaðinu hygg ég, það var formaður prófessoraráðs Landspítalans, ég held ég fari rétt með, maður er orðinn svo nervus yfir því að fara nú örugglega rétt með allt sem ég gjarnan vil gera, en hann sagði í þessari grein og í viðtalinu við Ríkisútvarpið að spítalinn þyrfti að lágmarki 3 milljarða til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu til að geta staðið undir eðlilegum rekstri sjúkrahússins, það væri lágmark sem þyrfti að koma til sögunnar. Ég veit og þekki það vel til spítalans, starfseminnar þar — og við gerum það eflaust mörg, bæði gegnum fólk sem þar starfar, sjúklinga o.s.frv., ég held við höfum öll einhver tengsl þarna inn, allt samfélagið hefur það — að spítalinn fær ekki þá peninga sem þarf til að rísa undir þeim skyldum sem við viljum að hvíli á herðum hans. Það held ég að sé alveg augljóst. Ég veit að á tilteknum sviðum innan spítalans eru starfandi mun færri sérfræðingar en þyrfti að vera, ég veit að á einni deild var starfandi einn læknir þar sem hefðu þurft að vera fjórir og hið sama gildir á öðrum stöðum. Þar vísa ég til sjúkraliða, það þekki ég og eflaust er það líka í röðum hjúkrunarfræðinga þótt ég þekki það ekki eins vel, en í ýmsum öðrum stéttum og hópum er þetta veruleikinn.

Ég vék að Ríkisútvarpinu áðan. Ég hef sannast sagna mjög miklar áhyggjur af Ríkisútvarpinu og ekki bara vegna þess að ekki sé komið til móts við fjárhagslegar þarfir Ríkisútvarpsins heldur leikur mér forvitni á að vita hvað kunni að vera að gerast þar innan dyra. Eru einhverjar kerfisbreytingar þar fyrirhugaðar? Það er hægt að fara þá leið sem menn eru að fara innan heilbrigðisþjónustunnar víðar en á þeim bænum. Það er hægt að fara í að markaðsvæða starfsemina í Ríkisútvarpinu eins og annars staðar. Þetta er hlutur sem við eigum eftir að taka til umræðu, ekki endilega núna við þessa fjárlagaumræðu en við hljótum að spyrja um hvað þarna er að gerast á komandi ári. Ég vona að við berum gæfu til að gera breytingar sem duga Ríkisútvarpinu.

Það eru að sjálfsögðu fjölmargar aðrar stofnanir og starfsemi sem ég mundi vilja víkja að en aðrir hafa gert það. Aðrir hafa beint sjónum að skólakerfinu. Ég hef áður talað um löggæsluna. Mér finnst skipta mjög miklu máli að hér sé góð löggæsla og ég hef sérstakar áhyggjur af því ef menn fara út á þá braut að vopna veika lögreglu. Það er engin leið til að gera hana sterka, það er mjög varasöm leið. En ég fagna því sem fram kom hjá hæstv. innanríkisráðherra þegar umræða fór fram um þetta málefni í þinginu fyrir tilstilli hv. þm. Árna Páls Árnasonar fyrir nokkrum dögum, þá lagði hæstv. innanríkisráðherra Ólöf Nordal áherslu á að ekki væri fyrirhuguð nein breyting í þá veru að vopnvæða lögregluna í ríkari mæli en verið hefur og það finnst mér gott. Mér fannst gott að heyra það, mér finnst mjög mikilvægt að við getum verið sameinuð um það annars vegar að styrkja og efla lögregluna og halda síðan vopnum frá hinum almenna lögreglumanni.

Hæstv. forseti. Þar sem lítill tími er eftir þá langar mig til að víkja að einu atriði sem tengist starfi mínu á þingi og er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Það snýr að umboðsmanni Alþingis. Við í nefndinni höfum lagt áherslu á og þar erum við að tala algerlega þverpólitískt, að hafa embættið sem öflugast og sterkast og við erum sammála um að efla eigi þann þátt í starfinu sem lýtur að forvörnum, það sem kallað eru frumkvæðisathuganir, athuganir sem umboðsmaður fer í til að kanna hvort pottur sé brotinn eða hvort færa megi mál til betri vegar. Við teljum að það hafi mikið forvarnagildi í stjórnsýslunni almennt. Umboðsmaður Alþingis hefur sýnt að mínum dómi að hann kann vel að fara með sitt vald og við leggjum áherslu á að gerð verði breyting á fjárlagafrumvarpinu til að koma til móts við óskir hans um að efla þennan þátt sérstaklega, forvarnaþáttinn, frumkvæðisrannsóknirnar og teljum að það þurfi að koma viðbótarframlag til embættisins sem nemur 15 millj. kr.

Mig langar til að ljúka þessari ræðu minni á því að beina því til hv. fjárlaganefndar og þingsins og vísa til varaformanns nefndarinnar sem situr hér í salnum, hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að taka þessa ábendingu eða óskir stjórnlaga- og eftirlitsnefndar Alþingis til vinsamlegrar skoðunar.