145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eftir reiðilestur hæstv. forsætisráðherra í dag um að hér skuli vera umræða um fjárlög ríkisstjórnar hans vil ég segja að þegar ég hélt mína fyrstu ræðu við fjárlagafrumvarpið, eins og ég hef alltaf gert, eyddi ég drjúgum tíma í upphafi máls míns í að fara yfir margt í hinum efnahagslegu forsendum sem er ákaflega jákvætt um þessar mundir. Ytri aðstæður eru mjög jákvæðar og margt er að vinna með okkur Íslendingum, sem betur fer, sem gerir það að verkum að menn geta nú séð betri fjárlög. Nú man ég ekki nákvæmlega hvenær sú ræða var haldin, en þá tók ég meðal annars dæmi um 60% lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu og nefndi hvað það hefði gríðarlega mikil áhrif á þjóðarbúskapinn vegna þess hvað við þurfum að flytja mikið inn, útgerðin, flugvélarnar okkar, þoturnar o.s.frv. Frá því að þessi ræða mín var haldin verð ég að segja að það breytir töluverðu um efnahagsforsendur að það er ekki 60% lækkun á heimsmarkaðsverði í dag heldur sennilega nálægt 75% eftir lækkanir síðustu daga, eða frá því OPEC-ríkin funduðu fyrir um tíu dögum og náðu sem betur fer ekki samstöðu um að takmarka framleiðslu. Þar að auki fara Íranir að koma inn á markaðinn þegar viðskiptabanni á þá lýkur og við getum þá séð hvað gerist.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hlustuðum við á reiðilestur hæstv. forsætisráðherra í dag. Hér er ég að flytja mína seinni ræðu og í upphafi ræðu minnar er enginn í salnum annar en forseti Alþingis, sem verður að sitja, og 1. varaforseti í ræðustól og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gengur í salinn. Ég hefði óskað þess, virðulegi forseti, að formaður fjárlaganefndar og varaformaður, hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, væru í salnum og hlustuðu á ræðu mína. Ég ætlaði að þessu sinni að skipta henni í tvennt, annars vegar að ræða um heilbrigðismál og þá alveg sérstaklega Landspítalann og hins vegar áfram um málefni aldraðra og öryrkja, þ.e. almannatryggingakerfið. Eins og ég sagði hefði ég viljað að þau væru í salnum vegna þess að ég ætla að fara í gegnum liði sem hrekja það sem stendur í nefndaráliti meiri hlutans um allt að 30% hækkun til Landspítalans, eins og þau eru að skreyta sig með. Þau eru í raun og veru að skreyta sig með stolnum eða jafnvel fölsuðum fjöðrum. Það er ekki 30,1% breyting frá fjárlagafrumvarpi 2013 til þess frumvarps sem við erum að ræða hér, það er einfaldlega rangt. Ég ætla að fara yfir það.

(Forseti (EKG): Forseti vill taka fram að varaformanni fjárlaganefndar, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, hefur verið gert viðvart um ósk hv. þingmanns. Varaformaður nefndarinnar er í húsi og ætti að geta hlýtt á mál hv. þingmanns.)

Á ég kannski bara að bíða?

(Forseti (EKG): Forseti vill, án þess að vilja fara hér í almenna umræðu, tilkynna að hv. þingmanni hefur verið gert viðvart og forseti gerir ráð fyrir að hann komi hingað innan tíðar.)

Ég þakka fyrir það. Formaður fjárlaganefndar kemur væntanlega ekki, enda sennilega klárt hver er á vaktinni í kvöld.

Áður en ég fer í málefni Landspítalans verð ég að segja að mér finnst meðferð meiri hluta fjárlaganefndar á fjárlagafrumvarpinu með ólíkindum. Hér hefur komið fram að veigamiklir liðir með háum fjárhæðum hafa gleymst og síðan hefur lítið verið rætt í raun og veru um þrjár nýjar stofnanir sem núverandi meiri hluti er að setja á stofn. Húsameistari ríkisins er endurreistur, verið er að opna sendiráð úti í Strassborg, sem síðasta ríkisstjórn lokaði og taldi nóg að hafa eitt í Frakklandi en ekki tvö, og svo er verið að setja á fót ferðamálaskrifstofu eða eitthvert apparat. Það er sem sagt verið að auka ríkisútgjöld hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að snúa mér að spítalanum. Eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans þá er í töflu verið að tala um 30,1% hækkun framlaga til Landspítalans og það er kallað að stórhækka þau í tíð núverandi ríkisstjórnar, samkvæmt þessari töflu. Þetta er að mínu mati ekki rétt. Framlög til spítalans sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins hafa dregist saman úr 9,4% árið 2013 í 6,8% árið 2014, eða um 28%, þegar tekið hefur verið tillit til tilfærslu S-lyfja til Sjúkratrygginga Íslands árið 2009. Fjárframlög til rekstrar á árinu 2015, samkvæmt fjárlögum, eru 7%, eða 3,5 milljörðum kr. lægri en árið 2008 á föstu verðlagi. Fjárframlög til rekstrar á árinu 2015 eru 11%, eða 5,2 millj. kr. lægri en árið 2008 á föstu verðlagi, ef leiðrétt er fyrir helstu verkefni sem flutt voru til Landspítala – háskólasjúkrahúss milli áranna 2008 og 2015. Fjárlagafrumvarp 2016, sem við ræðum nú, boðar engar breytingar á þessari stöðu. Frá 2008, sem dæmi um þetta, hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 6,7%, þar af hefur íbúum 70 ára og eldri fjölgað um 13,2% og 80 ára og eldri um 19,4%. Landsmönnum í heild hefur fjölgað um 4,3%. Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu vex mjög hratt með aldri og tíðni langvarandi sjúkdóma hefur stóraukist og þjónustuþörf þar með. Að meðaltali vex eftirspurn eftir þjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss um 1,7% á ári.

Samkvæmt OECD var framlag til heilbrigðismála 2013 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 8,7% á Íslandi. Á sama tíma var það 11% í Svíþjóð og tæp 9% í Noregi. Samkvæmt OECD var verg landsframleiðsla á íbúa í Svíþjóð 2013 um 6% hærri en á Íslandi, en munurinn á framlagi til heilbrigðismála var 26%. OECD-ríkin verja að meðaltali um 0,5% af vergri landsframleiðslu til fjárfestinga í innviðum heilbrigðiskerfa sinna. Þetta hlutfall var á Íslandi innan við 0,1% árið 2013. Það er lægra en í Grikklandi þar sem erfiðleikar hafa verið miklir en heldur hærra en í Mexíkó sem var í neðsta sæti í þessum samanburði OECD, en Ísland var þar fyrir ofan í næstneðsta sæti. Sama ár vörðu Danir tæplega 0,7%, Svíþjóð tæplega 0,6% og Noregur tæplega 0,5% til stofnfjárfestinga innan heilbrigðisþjónustunnar árið 2013.

Fjárlög 2014, 2015 og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 gefa ekki til kynna miklar breytingar á þessu. Miðað við núverandi fjárlagafrumvarp skortir tæpa 3 milljarða kr. til að reka Landspítala – háskólasjúkrahús á árinu 2016 og viðhalda svipuðu þjónustuframboði og aðbúnaði. Þetta er skilgreint þannig að 1.400 millj. kr. vantar til viðhalds og nýframkvæmda, 1.040 millj. kr. til að mæta almennri aukningu á eftirspurn og 400 millj. kr. til að halda áfram uppbyggingu tækjakosts og 400 millj. kr. til að mæta kostnaði af nýjum kjarasamningi lækna vegna vinnutímakrafna, en launabætur samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru vanáætlaðar um þessa fjárhæð. Það kemur reyndar fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að um það sé eitthvert rifrildi milli velferðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Þá er ekki tekið tillit til kostnaðar við lækkun biðlista sem Landspítalinn hefur þegar gert tillögu um og fjallað er um í þessum breytingartillögum, um 840 millj. kr., sem ég fagna mjög enda er nóg að segja að þörf hafi verið á. Í júní biðu alls 3.616 einstaklingar eftir skurðaðgerð á augasteini, 739 eftir gerviliðaaðgerð á hné, 454 eftir gerviliðaaðgerð á mjöðm og 202 eftir hjarta- og/eða kransæðamyndatöku, kransæðavíkkanir þar meðtaldar. Það á sem sagt að setja 840 milljónir í þetta samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans og því ber auðvitað að fagna. Við skulum samt hafa það í huga að biðlistinn er svona langur vegna þess sem hefur verið að gerast undanfarin ár sökum fjárskorts spítalans.

Það er ekki rétt sem hér hefur komið fram og ég hef farið yfir með þau 30,1% sem meiri hluti fjárlaganefndar er að hæla sér af. Það er einfaldlega rangt. Ég hef farið yfir það og sýnt fram á að það, t.d. í fjárlagafrumvarpinu með verðbætur og þar með taldar launabætur upp á tæpa 4,2 milljarða þá lækkar sú tala sem þarna stendur strax úr 11,6 milljörðum niður í 7,4 milljarða og þá á enn eftir að takast á við aukin útgjöld vegna kjarasamninganna sem fjármálaráðuneytið samdi um í kjarasamningum við heilbrigðisstarfsfólk.

Þetta er nú staðan, virðulegi forseti, hvað varðar Landspítalann. Mér finnst það alveg með ólíkindum þegar stjórnarmeirihlutinn á þingi gortar sig af þessu. Menn ættu að lesa pistlana sem forstjóri Landspítalans birtir á hverjum föstudegi. Hann birti einn eftir að hafa heimsótt fjárlaganefnd Alþingis til þess að ræða þar málin og fylgja eftir sínum málum. Það var þá sem hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, leyfði sér að segja, eftir að forstjóri spítalans og sendinefndin sem kom frá spítalanum til að gera grein fyrir stöðunni og tala við fjárlaganefnd, að þessi hópur hefði beitt — ég vissi aldrei hvort það var hana eina eða meiri hlutann eða fjárlaganefnd alla — andlegu ofbeldi við það að rökstyðja sitt mál og setja fram kröfur, m.a. með þeim tölum sem ég hef gert að umtalsefni. Það er mikið athugunarefni fyrir hið háa Alþingi að skoða hvaða móttöku gestir fá í nefndum. Ég tek þetta sem dæmi vegna þess að Alþingi hefur mikla þörf á því að aðilar gefi umsagnir um frumvörp og gestir komi og fylgi málum eftir, eins og forstjóri og teymi spítalans gerðu en þá var þetta móttakan. Forstjóri spítalans hefur lagt fram skilmerkilega þá tölu sem ég fór hér yfir og vantar inn í fjárlagafrumvarp næsta árs.

Virðulegi forseti. Ég sagðist líka ætla að gera málefni aldraðra og öryrkja að umtalsefni aftur, þ.e. almannatryggingakerfið. Þá vil ég fyrst segja að í tíð þessarar ríkisstjórnar, frá maí 2013, hafa óskertar örorkulífeyrisgreiðslur eftir skatt hækkað um 10 þús. kr., eða úr 162 þús. kr. í 172 þús. kr. Í því efni fer stjórnarmeirihlutinn enn einu sinni á flug og talar um háar prósentutölur. Enn einu sinni er verið að villa um fyrir þeim sem hlusta á umræðuna og eiga að taka við þessum rangfærslum, liggur við að ég segi, og vitleysu sem stjórnarþingmenn hafa sett fram. Á sama tíma og þessi 10 þús. kr. hækkun hefur verið sett fram, sem stjórnarmeirihlutinn hælir sér svo svakalega af, þá hafa orðið mjög miklar kostnaðarhækkanir, svo sem á húsnæðislið, heilbrigðiskostnaður og síðast en ekki síst, vegna þess að öryrkjar þurfa líka að borða þó að þeir eigi oft ekki fyrir því, var virðisaukaskattur á matvæli hækkaður svo að fátt eitt sé nefnt. Það er staðreynd. Það þarf enga prósentuútreikninga stjórnarliða um það, sem koma hingað og lesa stíla sem eru sendir úr félagsmálaráðuneytinu frá hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur til allra stjórnarþingmanna sem lesa svo sama pistilinn um 17,1% hækkun. Há prósenta á lága tölu er hækkun um ekki neitt neitt, enda er það staðreynd að örorkulífeyrisgreiðslur hafa einungis hækkað um 10 þús. kr. eftir skatt.

Það með ólíkindum að stjórnarmeirihlutinn skuli fara í þá vegferð sem hann er í og veldur hvað mestum deilum á Alþingi að samþykkja ekki að aldraðir og öryrkjar fái afturvirka hækkun alveg eins og allir aðrir í þjóðfélaginu. Ég leyfi mér að segja allir aðrir vegna þess að ég hef ekki fundið eina einustu starfsstétt sem hefur verið samið við á þessu ári og hefur ekki fengið afturvirkar greiðslur. Það á að ráðast á þá sem minnst mega sín. Ríkisstjórnin hefur fundið breiðu bökin í öldruðum og öryrkjum, þvílík lágkúra.

Fyrir síðustu kosningar kom fram í svari framsóknarmanna að brýnasta verkefni í málefnum aldraðra og öryrkja yrði að hækka lífeyri þeirra vegna kjaraskerðinga og kjaragliðnunar, en ekkert hefur bólað á þeim hækkunum. Ég þykist þess fullviss að nú komi einhver stjórnarmeirihlutamaðurinn í andsvar við mig og tali um það sem var gert 2013. Virðulegi forseti, það sem gert var 2013 kom þeim best sem hafa mest, sérstaklega öldruðum, með því að taka af einhverjar tengingar við laun þar sem 70 ára og eldri máttu vinna án þess að kæmi skerðing á ellilífeyri og líka eitthvað varðandi fjármagnstekjur.

Ég ætla að fara betur yfir það sem höfum verið að tala um. Þessi 9,4% sem hækkuðu svo upp í 9,7%, sem skiptir í raun og veru engu máli í þessu dæmi, er hækkun upp á rúmar 11 þús. kr. eftir skatt. Þetta er 16–17 þús. kr. hækkun, en 11 þúsund eftir skatt. Þess vegna er rangt að tala um það eins og gert er að þetta kosti ríkissjóð 6,2 milljarða eða hvaða tala var nefnd. Ríkissjóður fær nefnilega skatt af þessu. Ætli nettótalan sé ekki um 4,2 milljarðar kr. Það er allt og sumt í því sanngirnismáli að aldraðir og öryrkjar fái afturvirka hækkun eins og allir aðrir.

Hækkunin upp á 3% sem ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarþingmenn stæra sig af að hafi orðið í upphafi þessa árs þýðir 4 þús. kr. eftir skatt. Þetta er allt og sumt. Ef ég hefði meiri tíma færi ég yfir það í þessari ræðu en ég geri það kannski í annarri eða þriðju ræðu minni.

Mér finnst mjög merkilegt í þessu samhengi að hafa fyrir framan mig bréf sem formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sendi öllum eldri borgurum þessa lands 22. apríl 2013 þar sem stóð „Ágæti kjósandi“ og hvað hann ætlaði að gera. Ef maður fer svo yfir það þá hefur það sem sagt var ekki allt verið gert.

Steininn tók úr í blaðagrein sem formaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði líka fimm mínútum fyrir kosningar og lofaði öldruðum og öryrkjum að afnema allt sem hin vonda vinstri stjórn átti að hafa gert og hækka bara allt saman svo að aldraðir gætu notið efri áranna með reisn. Þvílík öfugmæli miðað við það sem við sjáum í þessu fjárlagafrumvarpi eða fjáraukalagafrumvarpinu fyrir þetta ár. Ég hef sagt að reikna eigi með 32–35 milljörðum í afgang en ríkisstjórnin ætlar ekki að koma til móts við aldraða og öryrkja hvað þetta varðar.

Ég hvet alla þingmenn stjórnarflokkanna að lesa bréf sem birtist í Kvennablaðinu ekki alls fyrir löngu sem er opið bréf til Bjarna Benediktssonar. Það er skrifað af Elvu Dögg Gunnarsdóttur og birt 7. júní 2015. Þar er farið yfir málefni þessarar konu sem opnar í raun allt sitt bókhald og leyfir okkur að skyggnast í það. Ég spyr: Dugar þetta ekki stjórnarsinnum til þess að endurskoða afstöðu sína? Hvað segir hv. varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem er eini stjórnarsinninn hér inni fyrir utan hæstv. forseta um þetta? Hefur (Gripið fram í.) hv. þingmaður og varaformaður fjárlaganefndar lesið þetta opna bréf? Hefur hann kynnt sér grein formanns síns frá því rétt fyrir kosningar 2013 eða bréfið sem var sent öllum þar sem lofað var gulli og grænum skógum ef menn kysu Sjálfstæðisflokkinn? Svo er allt saman svikið núna. Ég bið hv. þingmann að koma endilega í andsvar við mig og ræða um 17,1%. Ég vildi óska að hv. þingmaður kæmi og læsi stílinn sem var sendur úr félagsmálaráðuneytinu á alla stjórnarþingmenn fyrir nokkrum dögum þegar eitthvert upphlaup varð þar. Komið nú og lesið þetta allt saman um prósenturnar. En spyrjum spurninga um 10 þús. kr. hækkunina frá maí 2013 eftir skatt, sem eru ráðstöfunartekjur, eða 4 þús. kr. í upphafi þessa árs eða ræðum um framlög til Landspítalans (Forseti hringir.) gagnvart þessari 30% hækkun þar sem menn eru að skreyta sig með stolnum fjöðrum, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) eins og verið er að gera.