145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hægt sé að gera hvort tveggja. Ég held að hægt sé að auka meira til heilsugæslustöðva sem eiga að vera fyrsti viðkomustaður. Það gefst ekki tími í stuttu andsvari til að fara yfir tilvísanakerfið eða annað hvað það varðar, þær 70 milljónir, en ég hef reynt að hlusta eftir útfærslum varðar varðandi nýjar heilsugæslustöðvar.

Virðulegi forseti. Í þjóðfélaginu í dag og út um allan heim er einkarekstur í heilbrigðisgeira. Hann er til. Við þurfum ekki að fara nema í læknamiðstöðina Mjódd eða Orkuhúsið eða hvar sem er, þar eru sérfræðingar með einkarekstur. Reikningurinn er síðan sendur til ríkisins.

Hvað varðar einkarekstur í heilsugæslu sem slíkan þá er ég ekki andvígur honum, alls ekki. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er tiltölulega spenntur fyrir að hann sé skoðaður, en ég er algjörlega á móti einkavæðingu enda er það allt annað. Þess vegna segi ég, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að hin opinbera heilsugæsla verði að vera fjármögnuð eðlilega til að nýta þann mannskap og búnað og (Forseti hringir.) annað til að sinna þeim sjúklingum sem þangað koma. Það er (Forseti hringir.) ódýrasta og fljótvirkasta leiðin.