145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta er ágæt ábending hjá hv. þingmanni. Ég minnist þess sem forseti Norðurlandaráðs að þegar við héldum hér í salnum fund nærri 100 þingmanna frá öllum Norðurlöndunum var það ákvörðun skrifstofu Norðurlandaráðs að fjarlægja einn hlut úr þingsalnum og það var einmitt þessi nefnda bjalla. Þeir töldu fara betur á því að forseti segði einfaldlega tími þegar þingmenn væru búnir með ræðutíma sinn en yki ekki á óróa í umræðunni með því að slá í bjöllu.

Ég veit að virðulegur forseti þekkir til í kennslustofum. Sumpart eru menn auðvitað að halda aga hér eins og í hverri annarri kennslustofu og það kann ekki góðri lukku að stýra fyrir kennara að hækka alltaf róminn eða yfirgnæfa það sem hann vill kveða niður. Þvert á móti getur verið snöggtum árangursríkari leið að lækka róminn. Bjallan held ég að sé fremur til óþurftar hér í salnum en til gagns og við ættum að losa okkur við hana.