145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:16]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans. Hann gerði að umtalsefni afnám fjármagnshaftanna og hvernig að því hefur verið staðið þar sem niðurstaðan varð í raun að það sem átti að vera stöðugleikaskattur varð að stöðugleikaskilyrðum þar sem slitabúunum var gefinn afsláttur af stöðugleikaskattinum með nauðasamningum.

Mig langar að forvitnast um það hjá hv. þingmanni hvað hann telur að þarna skeiki háum fjárhæðum í raun og veru. Einhvers staðar kom fram í umræðunni að stöðugleikaskatturinn hefði átt að skila um 850 milljörðum kr. en með afslættinum muni niðurstaðan verða nær 300 milljörðum og það sem á milli ber sé þá í kringum 500 milljarðar kr. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að þetta geti verið raunin og hvernig sér hann það þá í samhengi við þessa fjárlagaumræðu og forgangsröðun þar sem við erum að ræða alvarlegan fjárhagsvanda velferðarstofnana meðal annars?