145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka fyrir að það hafa verið gerðar ráðstafanir til að kalla hér í hús hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra. Það var líka nefndur hv. formaður fjárlaganefndar. Ég veit að ég á að vera með henni í útvarpinu kl. 7.30 í fyrramálið en ég trúi því að hún sé í húsinu og geti komið í salinn, t.d. þegar ég held mína þriðju ræðu í fjárlögum og mér þætti vænt um það.

En þá vil ég tala um þá hysteríu sem virðist vera að grípa um sig í þjóðfélaginu. Það var ekki nóg með að við yrðum vitni að mjög vandræðalegu upphlaupi hæstv. forsætisráðherra í dag þar sem hann einhvern veginn lýsti yfir bæði heimsmetum og Evrópumetum og Íslandsmetum og síðan stríði við yfirleitt alla, stjórnarandstöðuna sem og lífeyrisþega þessa lands og fleiri, en nú er starfandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins búinn að missa sig algerlega hér í pontunni. Ég held að það sé tímabært að við slítum þessum fundi.