145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég vil lýsa því yfir að ég er henni hjartanlega sammála um öll megináhersluatriði sem komu fram í ræðunni. Þegar við skoðum helstu deilumál sem tengjast fjárlagaumræðunni þá met ég það svo að alvarlegur sé ásetningur ríkisstjórnarinnar að svelta Landspítalann um 3 milljarða til að hann geti starfrækt starfsemi sína með eðlilegum hætti eins og forsvarsmenn sjúkrahússins hafa bent á, það er alvarlegt. Það væri í sjálfu sér hægt að laga með fjárauka eins og ríkisstjórnin hefur verið að gera í þeim málaflokkum sem hún neitaði að koma til móts við stjórnarandstöðuna í síðustu fjárlögum. Það væri hægt að gera það. Það væri slæmt að ganga ekki frá hækkun til Ríkisútvarpsins núna.

En er hv. þingmaður sammála mér um að alvarlegasta brotalömin í málsmeðferðinni núna sé gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegum, vegna þess að þar erum við að tala um annars vegar í fjáraukanum afturvirkni og síðan ákvörðun um kjarabætur þeim til handa á komandi ári? Það eru ákvarðanir sem erfiðara er að taka með fjárauka síðar meir þannig að ég met það svo að það sé að mörgu leyti alvarlegasta brotalömin í frumvarpinu, þó að ég undanskilji þar að sjálfsögðu ekki Landspítalann og ég undanskil ekki Ríkisútvarpið að því leyti að það er einhver ósæmilegur illvilji sem býr þar að baki.