145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir andsvarið. Ég er algerlega sammála honum. Það er alvarlegasta brotalömin því að það varðar framfærslu tugþúsunda Íslendinga. Auðvitað er það svo og þakkarvert að það eru ekki allir lífeyrisþegar á lægstu bótum og langt í frá. En það er umtalsverður fjöldi Íslendinga sem er bara með framfærslu úr almannatryggingum. Þetta er hópur sem býr í dag við fátækt. Ef það fólk á einhverja nána aðstandendur sem geta liðsinnt þarf það að reiða sig á þá, ættingja og vini, sem er bæði algerlega forkastanlegt í velferðarsamfélagi og mjög niðurlægjandi fyrir fólk, sérstaklega til lengdar. Við gerum nú ekki mikið meira með þeim hækkunum sem við erum að leggja til en að leggja til að fólk geti kannski keypt í matinn fyrir jólin.

Mér er það svo illskiljanlegt að fólk sem fór hér fram fyrir síðustu kosningarnar með hástemmdum loforðum um kjaraleiðréttingar og ég veit ekki hvað hefur nánast ekki skilað neinu til baka. Megnið kom í gegnum bráðabirgðaákvæði frá fyrrverandi ríkisstjórn. Það sem þau hafa lagt til er hækkun á almannatryggingum fyrir þá sem eru með um 300 þús. kr. í lífeyrissjóði á mánuði, þannig að verst stöddu lífeyrisþegarnir með slökustu kjörin eru algerlega skildir eftir. Það er það sem við berjumst gegn og það er því sem við ætlum að fá breytt í þessum umræðum.