145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa óskað eftir upplýsingum um nærveru þeirra ráðherra sem óskað hefur verið eftir að komi hingað til fundarins. Við höfum í sjálfu sér ekki gert ríkar kröfur á hendur þeim ráðherrum sem þetta mál ætti helst að brenna á og þau mál sem hér eru til umræðu, sérstaklega hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra sem báðir eiga útistandandi mjög stóra dilka í þessari sláturtíð og ættu kannski að vera hér til svara til að taka þátt í umræðunni, gera grein fyrir stöðu mála.

Það var til dæmis ekki auðvelt að ráða af kvöldfréttum hver staða mála varðandi Ríkisútvarpið væri nákvæmlega og eðlilegt fyrst hæstv. menntamálaráðherra er farinn að tjá sig við fjölmiðla um stöðu þeirra mála að hann komi líka hér í þingsal og eigi orðastað við þingmenn um þá stöðu.