145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

orð þingmanns -- lengd þingfunda.

[10:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í það meginefni sem hér er til umræðu, ég kem upp út af ræðu hv. þm. Páls J. Pálssonar. Hv. þingmaður hélt því fram að hér héldu menn langar ræður, jafnvel 40 mínútna ræður, án þess að minnast á umræðuefnið sem er fjárlagafrumvarpið. Nú vill svo til að í Framsóknarflokknum eru margir góðir menn sem ég tek mikið mark á. Einn af þeim er hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson. Hann hélt hér ógleymanlega ræðu í gær, m.a. fyrir þær sakir að hann sagði að þessi umræða hefði fært margt skynsamlegt inn í umræðuna um fjárlagafrumvarpið. Með öðrum orðum var það dómur þess manns sem hafði setið hér á forsetastóli og þess framsóknarmanns sem mest hefur fylgst með umræðunni að hún væri enn að mylgra inn jákvæðum upplýsingum. Sjálfur hélt ég hér 40 mínútna ræðu eins og ég hef heimild til samkvæmt þingsköpum, og hvar var hv. þingmaður þá? Hann var ekki á Alþingi Íslendinga. Hann var ekki að vinna vinnuna sína. Hvar var hv. þingmaður þegar þingmenn ræddu hér fjárlagafrumvarpið í gær? (Forseti hringir.) Hann var ekki í vinnunni sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)