145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þessum áhyggjum hv. þingmanns. Hún er kúnstug skepna, þessi ríkisstjórn. Þar sem fyrir hendi er pólitísk samstaða nýtir hún hana ekki og á öðrum sviðum kýs hún helst að brjóta hana upp ef hún er fyrir hendi.

Það er mjög athyglisvert að sú mynd er að teiknast upp af þingstörfum miðað við áætlanir ríkisstjórnarinnar þennan veturinn að þegar fjárlög verða afgreidd þá verður ekkert að gera á Alþingi Íslendinga fram til vors. Það eru engin önnur mál.

Það þýðir með öðrum orðum að ríkisstjórnin þjappar, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, öllum pólitískum álitamálum inn í fjárlagafrumvarpið vegna þess að það er þá hægt að afgreiða í einu lagi og hún treystir sér ekki til að eiga hér rökræðu um stefnumörkun í neinum málaflokki. Það er mjög sérkennilegt að ríkisstjórn treysti sér ekki til þess að leggja fram samgönguáætlun eða þróunarsamvinnuáætlun. Það er mjög athyglisvert.

Varðandi innflytjendamálin sérstaklega þá er þetta leikur að eldi því að það er ekki gefið á þeim tímum sem við lifum að það myndist þverpólitísk samstaða um málefni innflytjenda, málefni útlendinga. Það hefur tekist hér. Það er hrósvert að þáverandi hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir skyldi fara af stað með þverpólitíska stefnumörkun í þessum málaflokki og það er öllum flokkum til hróss að hafa leitt hana til lykta.

En stjórnvöld bera ríka ábyrgð á að láta hana ekki verða að engu því að hættan er sú ef við bindum ekki öll stjórnmálaöfl utan um þessa stefnumörkun hafi menn frítt spil í næstu kosningum til að gera út á útlendingaótta eða fordóma með skelfilegum afleiðingum, eins og við höfum séð dæmi um í öðrum löndum. (Forseti hringir.) Hinn mikli árangur sem náðist með þverpólitísku sammæli um útlendingamálin er því pólitískur ávinningur fyrir þjóðina í heild. Ef ríkisstjórnin gerir ekkert með hann er hún að leika sér að eldinum.