145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal persónulega færa Jóhönnu Sigurðardóttur þá kveðju frá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni að öll verk fyrrverandi ríkisstjórnar hennar hafi verið gallalaus. Það er auðvitað fallega sagt en ég held þó að það sé kannski eilítið óraunsætt mat. Þó að margt gott hafi verið gert á síðasta kjörtímabili voru þar auðvitað ýmsir hlutir sem má gagnrýna.

Það sem þetta snýst um er ekki það hvað hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur heyrt einhvers staðar eða ekki heyrt eða heyrir nú í fyrsta sinn. Þetta snýst einfaldlega um það að þegar eru erfiðir tímar eins og voru árið 2009 og eins og eru enn á mörgum íslenskum heimilum, hv. þingmaður, þá er eðlilegt að þeir sem breiðust hafa bökin leggi meira til en aðrir. Það að 5 þús. ríkustu heimilin legðu til 10 milljarða sérstaklega í formi auðlegðarskatts var sjálfsagt og er sjálfsagt. Það er kappnóg við þá 10 milljarða að gera, einkanlega þegar ekki er hægt að sjá fyrir grunnþjónustu á Landspítalanum, þegar ekki er hægt að láta kjör aldraðra og öryrkja einfaldlega fylgja kjörum okkar hinna. Við erum ekkert að tala um kröfur um að þau kjör batni umfram okkar eða séu hækkuð sérstaklega vegna þess hvað þau eru lág, bara að menn sjái sóma sinn í að láta þau hækka jafn mikið og hinna. Hér er dregið fram að það er bara pólitísk ákvörðun hjá hv. þingmanni að hlífa 5 þús. ríkustu heimilunum við skattheimtu en synja öldruðum og öryrkjum um kauphækkanir frá sama tíma og við hin höfum notið að sama skapi.