145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðreyndin er einfaldlega þessi: Eftir að Framsóknarflokkurinn hafði verið í félagsmálaráðuneytinu í meira en áratug kom jafnaðarmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir þangað inn og þá var tekin ákvörðun um það, út af pólitískri lífssýn, að stórbæta kjör lífeyrisþega í þessu landi. Og það var gert. Það geta menn séð á þeim tölum og yfirliti yfir þann grunnlífeyri sem greiddur var út úr Tryggingastofnun. Það eru staðreyndir. Það er gríðarleg hækkun á milli áranna 2008 og 2009. Síðan er aftur hækkun árið 2011 upp á 10%. Það er vegna þess að það verður ákveðin launaþróun í landinu, þannig að fordæmin eru svo sannarlega til staðar.

Ég vil hvetja þessa ríkisstjórn til að taka þessar breytingar sér til fyrirmyndar og horfast í augu við að það lifir enginn í þessu landi á 192 þús. kr. nettó. Það gerir það enginn sem greiða þarf af húsnæði, hafa í sig og á og jafnvel gefa barnabörnunum gjafir, hvað þá yngri öryrkjar sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá. Það þarf ríkisstjórnin að horfast í augu við en ekki standa hér og bjóða okkur upp á málflutning á borð við þann að fólk geti ekki fengið sambærilegar hækkanir afturvirkt eins og aðrir á íslenskum vinnumarkaði vegna þess að það fái einhverjar methækkanir núna um áramótin, sem er bara rangt.

Síðan munu aftur verða hækkanir hjá launafólki í maí sem gera það að verkum að íslenskir lífeyrisþegar munu sitja eftir þegar kemur að samanburði við lægstu launin. Það eru bara staðreyndir. Við skulum hætta þessum blekkingarleik og fara að horfast í augu við þann veruleika sem íslenskir öryrkjar og eldri borgarar búa við og taka höndum saman um að bæta kjör þeirra.