145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það gleður mig að sjá að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er viðstödd þessa umræðu, a.m.k. þessa klukkustundina. Ég vildi gjarnan að hún tæki til máls og útskýrði það fyrir því fólki sem fær ekki sömu kjarabætur og annað fólk í landinu hvers vegna það er og hvernig hún og ríkisstjórnin geti réttlætt það og sagt að aldrei hafi verið greitt meira í þetta en áður.

Virðulegi forseti. Það er þannig með flest að aldrei hefur verið greitt meira en nú vegna þess að allt hækkar, fjárlögin hækka. Þetta tal sem menn eru stundum með og segja að aldrei hafi verið greitt meira í þetta og aldrei meira í hitt — sem betur fer, virðulegi forseti, sem betur fer. Þegar fjárlögin hækka, þegar allt hækkar, þá hækka líka greiðslur til aldraðra og öryrkja, þeim fjölgar en þeir hækka ekki nóg. Það er það sem við erum að segja. Greiðslur til þeirra hækka ekki á sama hátt og til annars fólks í landinu.

Hæstv. forsætisráðherra sagði það blákalt í gær að við gætum talað um þetta endalaust — hann sagði það næstum því, hann orðaði það nú ekki þannig, virðulegi forseti, en það var meiningin — en það yrði ekkert bætt í í þá fjármuni sem ættu að fara til aldraðra og öryrkja. Mér fyndist ágætt og gott ef ráðherrann sem er ábyrgur fyrir þessum málaflokki kæmi og staðfesti að þetta sé svona og staðfesti að það sé engin von fyrir þingmenn í stjórnarflokkunum eins og hv. þm. Ásmund Friðriksson eða hv. þm. Willum Þór Þórsson sem kom hér upp í dag og sagðist hafa fullan vilja til að reyna að bæta úr þessu. Ég vil sannast að segja ekki trúa öðru, virðulegi forseti, en að stjórnvöld, ríkisstjórnin og meiri hlutinn í þinginu sjái sig um hönd og leiðrétti þetta dæmi og hækki lífeyri til ellilaunaþega og það sem öryrkjar eiga að lifa á frá og með 1. maí 2015. Ég ætla að leyfa mér að vera svo bjartsýn, virðulegi forseti, að trúa því að eitthvað gerist í þeim málum vegna þess að almennt og yfirleitt þá trúi ég á það góða í fólki. En ef svo verður ekki þá vildi ég að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, kæmi hér upp og segði það við skjólstæðinga sína sem má kalla, menn kalla fólk stundum skjólstæðinga sína, því að hún fer með þennan málaflokk. Hún útskýrir það fyrir þessu fólki, öryrkjum sem ætla að mæta hér og hafa mætt þessa viku og ætla að mæta alla þessa viku, a.m.k. á meðan þingið er, að það sé ekki til neins. Mér finnst virðingarvert af hæstv. ráðherra að mæta hérna en það væri enn þá betra ef hún tæki til máls.

Hér í dag hafa nokkrir stjórnarþingmenn látið í sér heyra. Ég hef minnst á hv. þingmenn Ásmund Friðriksson og Willum Þór Þórsson sem báðir hafa tekið hér til máls, Willum Þór Þórsson að vísu undir störfum þingsins, en hv. þm. Ásmundur Friðriksson hélt ræðu sem mér fannst á margan hátt fróðleg og ánægjuleg að því leytinu til að hann staðfesti það að hann væri óánægður með það hvernig kjaramálum ellilaunafólks og þeirra sem lifa við örorku væri fyrir komið. Hann sagðist vilja sjá það leiðrétt. Ég heyrði það þannig, virðulegi forseti, að hann vildi fá það leiðrétt frá maí eða júní, hann orðaði það einhvern veginn svoleiðis. Það kveikti þá von í mínu brjósti að menn væru svolítið að færa sig að því, af því að þeir gætu ekki farið alveg að tillögum stjórnarandstöðunnar, að þeir gætu samþykkt þessa kjarabót afturvirkt, kannski frá 1. júní. Ég vona það enn þá.

Hérna tók líka til máls undir störfum þingsins ágætur þingmaður úr Suðurkjördæmi, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, og skammaðist yfir því að við í minni hlutanum værum að tala heilmikið í þessari umræðu en töluðum ekkert um fjárlögin. Þetta er önnur ræða mín í málinu og ég talaði í 40 mínútur í gær um fjárlögin og ekki annað og ég tel að það sem ég er búin að vera að tala um núna sé um fjárlögin. Það er í fjárlögunum sem ákveðið er um kjör ellilaunafólks og lífskjör öryrkja. En hann sagði sem sagt að við hefðum ekki talað um fjárlögin. Hvernig veit hv. þm. Páll Jóhann Pálsson eitthvað um það? Hann er aldrei hér. Hann kom vissulega, ég tók eftir því, og hlustaði á hv. þm. Ásmund Friðriksson og ég vona að hann hafi heyrt margt af því sem hv. þingmaður sagði því að það var ágætt.

Það var hins vegar eitt sem sló mig í ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar, hann talaði um ríkishítina. Mikið óskaplega leiðist mér það þegar talað er um sameiginlega sjóði okkar í þessu landi, þá sjóði sem við borgum okkar skatta í, þá sjóði sem eiga að fara og fara að mestu, sem betur fer að miklu leyti en þó ekki að nægilega miklu leyti, til að borga innviðina í landinu, alla grunnþjónustu, menntakerfið, heilbrigðiskerfið og annað, og menn kalla það ríkishít. Það finnst mér óskaplega leiðinlega að orði komist, ég hlýt að segja það. En ég var að mörgu leyti mjög ánægð með ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar og sérstaklega það sem ég held að verði ekki of oft endurtekið, að hann vill leggjast á sveif með okkur og breyta því hvernig ríkisstjórnin hyggst haga launakjörum eldri borgara og öryrkja.

Menn hafa talað um það og það er vissulega rétt að náðst hefur viðsnúningur í ríkisfjármálum, sem betur fer. Maður á nú ekki að leggja nafn drottins guðs síns við hégóma, virðulegi forseti, en guði sé lof að okkur tókst að snúa því við. Við vorum, held ég, með 217 milljarða í halla fyrir ekki svo mörgum árum. Hvað eru þau orðin, sex, sjö ár? Þetta hefur snúist við og sem betur fer gengur alltaf betur og betur. Nú er í landinu, ég held að rétt sé að orða það þannig, virðulegi forseti, blússandi góðæri. Samt sem áður, virðulegi forseti, þá tekst ekki í þessum fjárlögum að vera með meiri afgang en var á því fjárlagaári sem nú er að líða, kannski aðeins meiri afgang. Það stefnir í mikla þenslu. Af hverju er það, virðulegi forseti? Það er vegna þess að hér er verið að lækka skatta óhóflega. Það er að gerast aftur það sem gerðist á árunum fyrir hrun: peningastefnan og ríkisfjármálastefnan eru ekki samstilltar. Það er stórhættulegt fyrir efnahagskerfið, virðulegi forseti. Það getur leitt til þenslu og það getur leitt til þess að við förum hér annan kollhnís. Hvað segja þeir sem eru við völd við því? Þeir segja: Þetta er allt því að kenna að það hafa orðið svo miklar launahækkanir í landinu.

Virðulegi forseti. Ég held því fram og hef haldið því fram og held því fram enn þá að einn stærsti gallinn hér á landi sé sá að laun í landinu hafa verið of lág. Nú hafa orðið verulegar launahækkanir hjá fólki bæði á almennum markaði og á opinberum markaði. Það sem við þurfum að gera núna er ekki að kalla og æpa og segja að launahækkanir hafa orðið allt of miklar og þess vegna fari verðbólgan af stað. Nei, nú þurfum við að halda þannig á spöðunum að sá kaupmáttur sem launahækkanir hljóta að leiða af sér, a.m.k. til styttri tíma, endist, hann haldi áfram þannig að við hífum okkur upp með þessum launahækkunum upp á annað plan ef þannig má orða það.

Þess vegna er ég mjög óánægð með að ríkisstjórnin hafi valið þá leið að fara í skattalækkanir til að hjálpa atvinnuvegunum við að koma á kjarasamningum síðastliðið vor. Þær eru mestar til þess fólks sem best hefur það, millitekjufólksins og jafnvel þannig að þeir sem eru ofan við það eru núna í hæsta skattþrepinu, eiga líka að fá skattalækkanir. Það sem ríkisstjórnin átti að gera var að lækka tryggingagjaldið. Hún hefði auðveldlega getað lækkað tryggingagjaldið, hún ætlar að verja á tveimur árum 11 milljörðum til að létta undir vegna þeirra kauphækkana sem hafa orðið. Hún hefði átt að lækka tryggingagjaldið. Þannig hefði hún hjálpað fyrirtækjunum til þess að geta staðið undir hærri launum. Ég trúi ekki að þeir sem reka fyrirtækin í þessu landi vilji ekki standa undir hærri launum, vilji ekki reka flott fyrirtæki þar sem fólkið sem vinnur þar fær góð laun. Það sem meira er, virðulegi forseti, ef tryggingagjaldið er lækkað hjálpar það mest litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það eru dýrmætustu fyrirtækin. Nei, virðulegi forseti, það er ekki rétt að segja að það séu dýrmætustu fyrirtækin vegna þess að öll fyrirtæki í landinu eru dýrmæt. Sjávarútvegurinn er dýrmætur, meira að segja álfyrirtækin, þótt þau mengi, eru dýrmæt. Öll fyrirtæki í landinu eru dýrmæt. En við litlu og meðalstóru fyrirtækin eru mestar vonir bundnar núna til þess að auka atvinnu í landinu, til að gera atvinnulífið í landinu fjölbreyttara og þar með renna styrkari stoðum undir efnahagslífið eins og gjarnan hefur verið sagt. Þetta held ég að sé hin mikla áskorun. Ef fólk hefur gott kaup þá borgar það hærri skatta og þá getum við byggt upp gott samfélagskerfi þar sem við erum með góða heilbrigðisþjónustu, góða skóla, gott ríkisútvarp, borgum öldruðum og öryrkjum laun sem þeir geta lifað af. Að því ættum við að reyna að stefna, virðulegi forseti.

Ég ræddi nokkuð í ræðu minni um daginn og í gær og langar að koma aftur inn á þann niðurskurð sem fjárlaganefnd leggur til gagnvart umboðsmanni Alþingis. Nú eru það vissulega ekki stórar upphæðir, virðulegi forseti, og kannski skrýtilegt að nefna það sérstaklega, en það er hins vegar mjög táknrænt að fjárlaganefnd skuli leggja til að þar sé skorið niður um 13 millj. kr. Á móti kemur að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur einróma, skilst mér, lagt til að fjárveitingar til embættisins verði hækkaðar um 15 millj. kr. Til hvers? Jú, nefndin leggur þetta sérstaklega til svo að umboðsmaður geti sinnt frumkvæðisathugunum.

Nú verð ég að játa það, virðulegi forseti, að fyrir tveimur árum eða svo var umræða um þetta í þingsal og ég gaf ekki mikið fyrir að það þyrfti að eyrnamerkja sérstakar fjárveitingar ef þannig má að orði komast þessum frumkvæðisathugunum. Þá var einfaldlega vegna þess að ég var og er svo sem enn þá þeirrar skoðunar að umboðsmaður hafi verið mjög góður í því að forgangsraða, hann forgangsraðar þeim verkefnum sem hann hefur tekið að sér. Samt sem áður hef ég skipt um skoðun, virðulegi forseti, á þessu. Ég tel ekki rétt að eyrnamerkja einhverja ákveðna fjárhæð til embættisins sem eigi að fara í frumkvæðisathuganir en ég tel að við á þingi eigum að leggja áherslu á að við viljum bæta peningum þarna inn vegna þess að við teljum að frumkvæðisathuganir séu mjög veigamikið atriði.

Við sáum á síðasta ári mikilvægi þeirra þegar umboðsmaður fór að athuga afskipti innanríkisráðherra af rannsókn lögreglunnar sem var náttúrlega með eindæmum. En hvað er umboðsmaður að gera akkúrat þessa dagana? Nú er hann að hefja frumkvæðisathugun á Útlendingastofnun, stjórnsýslu Útlendingastofnunar. Af hverju gerir hann það? Jú, hann gerir það vegna þess að forstjóri Útlendingastofnunar ku hafa sagt í Kastljóssviðtali, í fyrrakvöld held ég að það hafi verið, að hún vissi ekki hvort athugað hefði verið með heilsufarsástæður litlu albönsku barnanna sem voru flutt héðan úr landi með foreldrum sínum með offorsi á dögunum. Þá kemur umboðsmaður og segir: Þetta er einmitt eitt af því sem Útlendingastofnun á að gera áður en gripið er til svo róttækra og mikilla aðgerða eins og að flytja fólk úr landi, það á að athuga þetta, athuga hvort það séu mannúðarástæður fyrir því að leyfa fólkinu að vera áfram og í því sambandi á að athuga hvort börnin muni fá þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa á að halda í landinu sem þau verða flutt til. Geta þau fengið þessa þjónustu í Albaníu? Forstjóri Útlendingastofnunar sagði nei, hún vissi ekki hvort þetta hefði verið athugað. Þá segir umboðsmaður: Þetta ætla ég að skoða, og hefur nú skrifað Útlendingastofnun bréf og biður um það.

Þetta er enn eitt dæmið um að þessi stofnun er ein sú nauðsynlegasta í (Forseti hringir.) landinu. Það má ekki spara tíeyring gagnvart henni.