145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að reifa alla þá efnisþætti sem ég nefndi sérstaklega, kjör öryrkja og aldraðra í fyrsta lagi, síðan málefni Ríkisútvarpsins og hag þess og í þriðja lagi heilbrigðisþjónustuna og Landspítalann. Ég vil að því sé haldið til haga í þessari umræðu líka að naumar fjárveitingar til heilsugæslunnar eru líka bagalegar, eins og hv. þingmaður hefur rækilega komið inn á í blaðagreinum og í umfjöllun í þinginu að undanförnu og bent á að sú hætta sé fyrir hendi að niðurskurðurinn þar geti knúið þessa starfsemi inn í einkarekstur. Ef skrúfað er fyrir getuna til að sinna verkefnum vitum við að annars staðar er opinn krani. Það höfum við séð í þessu frumvarpi þegar meira en milljarður er settur inn í einkareksturinn til að standa straum af kostnaði við samninga við sjálfstætt starfandi lækna. Hins vegar vill standa á slíkum fjárveitingum vegna kjarasamninga á Landspítalanum. Mig langaði til að nefna þetta með heilsugæsluna vegna þess að hv. þingmaður hefur ítrekað gert það.

Mig langar að heyra aðeins nánar um það efni frá hv. þingmanni og í öðru lagi: Hvaða afleiðingar telur hv. þingmaður að það hafi ef ekki verður komið til móts við Landspítalann frekar en gert er í fjárlagafrumvarpinu? Mun það leiða til uppsagna að mati hv. þingmanns?