145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekki af hreinni tilviljun að ég notaði orðið örlagaklökkvi áðan. Það er, eins og hæstv. menntamálaráðherra veit, ættað úr Önundarfirði eða tengist atburðum sem helgast af Önundarfirði, þar sem hæstv. menntamálaráðherra á í dag sterkar rætur.

Mér finnst að það sé einhver örlagaklökkvi yfir málefnum Ríkisútvarpsins og það stafar af eftirfarandi: Hér er hæstv. menntamálaráðherra að lýsa sínum góða vilja. Ég er sammála þeim rökum sem hæstv. ráðherra flutti hér. Ég er sammála því að taka eigi tillit til þess að dreifikostnaður er meiri og miklu meiri en menn gerðu ráð fyrir og sömuleiðis verður að taka tillit til þess að launahækkanir hafa orðið verulega umfram það sem ríkið sjálft gerði ráð fyrir. Um það erum við hæstv. menntamálaráðherra sammála. Um það eru stjórnarandstaðan gjörvöll og hæstv. menntamálaráðherra sammála. En það vill svo til að hæstv. menntamálaráðherra virðist standa einn á berangri innan ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessum málum.

Komið hefur fram og ég held að ráðherra hafi sagt það sjálfur að hann hafi lagt fyrir ríkisstjórnina tillögu sem var stoppuð. Utan frá var þrýstingi beitt gegn henni af hv. formanni fjárlaganefndar og hv. varaformanni fjárlaganefndar, þeim tveimur sem verið hafa þeir erfiðustu djöflar sem hæstv. ráðherra hefur þurft að dragnast með í gegnum sinn feril.

En innan ríkisstjórnarinnar hefur ráðherrann heldur ekki stuðning og það er þess vegna sem ég segi að það sé einhver örlagaklökkvi yfir málefnum Ríkisútvarpsins. Hér er ráðherra sem látið hefur af upphaflegri villu síns vegar og hefur séð það sem skynsamlegt er í málinu, vill berjast fyrir því en hefur ekki afl til þess. Hann hefur ekki stuðning til þess.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hvernig lítur hann svo á að sín stjórnskipulega staða sé (Forseti hringir.) þegar í ljós kemur að stefna hans í málefnum Ríkisútvarpsins nýtur ekki trausts innan ríkisstjórnarinnar?

Í öðru lagi: Hverjar eru þessar aðgerðir sem hann telur að Ríkisútvarpið þurfi að grípa til (Forseti hringir.) ef svo fer fram eins og staðan er í dag?