145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla kannski að umorða spurninguna og varpa henni til hv. þingmanns. Af hverju hefur hún ekki séð hæstv. heilbrigðisráðherra hér í umræðunni? Af hverju hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson þurft að bíða dögum saman eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra finnist? Af hverju hefur forseti þingsins dag eftir dag sagt að boðum hafi verið komið til hæstv. heilbrigðisráðherra en hann hefur aldrei komið? Hann þorir ekki til umræðunnar, ekki bara vegna þess að það er féskylft til spítalans heldur vegna þess að hann óttast spurningarnar sem bíða frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni vegna þess að þær snúast um grundvallaratriði, um einkavæðingu. Það eru sterk öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem augljóslega vilja ekki setja meiri pening í Landspítalann heldur nota þá staðreynd að þar skortir fé til að ýta starfsemi út úr spítalanum yfir á einkamarkaðinn. Og þeir sem reka einkamarkaðinn eru fyrrverandi toppar, jafnvel topparar innan Sjálfstæðisflokksins. Það er skýringin.

Þingið fær hins vegar ekki að ræða þessar lykilspurningar við hæstv. heilbrigðisráðherra.