145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að fylgjast með umræðunni núna frá því að matarhléi lauk og verð að segja að mér finnst hún vera mjög málefnaleg og að vissu leyti alvöruþrungin. Fólk er að ræða ýmsa efnisþætti, nú síðast um Ríkisútvarpið. Ég vil taka undir það eina ferðina enn sem margir hafa sagt að það er þakkarvert af hálfu hæstv. menntamálaráðherra að koma til þessarar umræðu eins og óskað hefur verið eftir við hann, þó að það sé svolítið skondið að menn skuli eiga hér orðastað við hann nánast eins og í gegnum miðil vegna þess að menn taka þátt í þessari umræðu í andsvörum við aðra þingmenn og nýta sér það að hæstv. menntamálaráðherra er í salnum og lifa síðan í voninni um að hann komi sjálfur upp í andsvar og taki á þann hátt þátt í umræðunni. Heppilegra hefði verið að mínum dómi að hann hefði blandað sér í umræðuna beint með ræðu vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra hefur mikið um þessi mál að segja frá eigin hjarta eins og hér kom fram. Hann hefur talað um mikilvægi þess að taka umræðu um framtíð Ríkisútvarpsins, á hvaða forsendum það skuli rekið, hvaða markmið skuli sett með starfseminni. Ég tel mjög mikilvægt að þessi umræða sé tekin jafnframt því sem við ræðum fjárlagafrumvarpið þar sem skammtað er fjármagni til þessarar stofnunar. Það hlýtur að tengjast þeim markmiðum sem við setjum okkur.

Ég hef verið mikill áhugamaður um Ríkisútvarpið og rekstur þess, var á sínum tíma formaður nefndar sem fjallaði um framtíð Ríkisútvarpsins, það eru nú komin ár og dagar síðan, það var í kringum 1990, undir lok níunda áratugarins. Við settum þá fram tillögur um það með hvaða hætti mætti tengja hin lýðræðislega naflastreng meðal annars inn í þennan sal og síðan út í þjóðfélagið þar sem þess væri gætt annars vegar að Ríkisútvarpið nyti sjálfstæðis en jafnframt væri það tengt hinu lýðræðislega valdi. Það er ekkert óhreint við það að vera tengt lýðræðinu og ekkert óhreint við að vera tengt Alþingi, þvert á móti er gott að þessi tengsl öll séu sem sýnilegust. Það eru þau þegar tengslin eru við Alþingi. Þannig var það fyrr á tíð. Síðan má það ekki heldur gerast að þingið verði eins og það var orðað undir hælnum á stjórnmálamönnum. Það má alls ekki gerast.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það þurfi að setja strangari reglur um auglýsingar í Ríkisútvarpi. Það verði að koma í veg fyrir kostun svo dæmi sé tekið og setja megi einhverjar takmarkanir á auglýsingar. En ég hef ekki fyrir mitt leyti lagst gegn auglýsingum í Ríkisútvarpi af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi eru auglýsingar hvorki slæmar né góðar. Auglýsingar sem eru upplýsandi eru góðar. Auglýsing sem segir manni rétt frá um vöru eða þjónustu er manni vinsamleg. Hún er góð. En sú auglýsing sem afvegaleiðir eða er ekki góð, hún er að sjálfsögðu af hinu illa. Þannig ber að líta á málið. Ég hef oft horft með eftirsjá til þess tíma þegar Ralph Nader var upp á sitt besta í Bandaríkjunum að halda auglýsendum á tánum um að fara rétt með. Það hefur orðið afturför að þessu leyti. Góðar auglýsingar þurfa ekki að vera slæmur kostur. Hin ástæðan fyrir því að ég hef ekki lagst gegn auglýsingum er einfaldlega smæð okkar þjóðfélags. Við erum svo fá. Ríkisútvarpið íslenska er ekki BBC í Bretlandi með tugi milljóna manna. Við verðum að horfast í augu við það að ef við skerðum auglýsingatekjurnar, leggjum af auglýsingaaflandi starfsemi eins og Rás 2, erum við þar með að segja að við gerum annaðhvort að draga úr starfseminni, rifa seglin, eða hækka afnotagjöldin og það er nú ekki beint mikil stemning fyrir því. En þessa umræðu þurfum við öll að taka.

Þá kemur að hinu sem hæstv. menntamálaráðherra sagði vinsamlega um fjárlaganefnd, að hún væri vakin og sofin í að passa upp á ríkissjóð. Það er alveg rétt að vissu marki. Auðvitað er það svo að allir eru að reyna að gera sitt besta og fjárlaganefnd er að reyna að ná þessum markmiðum. En það er líka hægt að ganga of langt í hinni peningalegu nálgun. Menn verða að spyrja hvers vegna. Menn verða að spyrja um markmiðin. Ég tók það sem dæmi í starfi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að við höfum fengið stofnanir inn í skýrsluformi frá Ríkisendurskoðun þar sem bent hefur verið á að tilteknar stofnanir eru að komast inn í fjárlagarammann, inn í skömmtunarseðilinn, hlíta öllum kvöðum, en að sama skapi hættar að rækja það hlutverk sem þeim var ætlað að rækja, jafnvel lögbundið hlutverk. Það er þáttur sem fjárlaganefnd ber að sjálfsögðu að skoða líka. Það á við um Ríkisútvarpið. Það verður að horfa til lögbundins hlutverks þess. Það er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt, hinn fjárhagslega ramma og markmið sem við setjum einstökum stofnunum. Ég hefði mikinn áhuga á að fara í langa og ítarlega umræðu um Ríkisútvarpið en við getum að sjálfsögðu ekki gert það hér. Ég vil bara minna á að þetta er samhengi hlutanna og verður að vera samhengi hlutanna.

Síðan undir lok minnar ræðu að þessu sinni: Mér hefur reiknast til að ég þurfi að tala í að minnsta kosti 140 mínútur. Það gera tíu ræður. Ég hef ákveðið að kaflaskipta þessum ræðum í nótt og á morgun eftir atvikum og taka einstaka þætti fyrir. Ég á eftir að fjalla nánar um heilbrigðismálin og mun þá að sjálfsögðu gera þá kröfu að hæstv. heilbrigðisráðherra verði viðstaddur. En til að vinna í haginn langar mig að beina því til formanns fjárlaganefndar þingsins hvað sé hæft í því að þegar gögn bárust frá heilbrigðisráðuneytinu um nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið talað um það skriflega að bjóða ætti þessa starfsemi út. Síðan hafi þær áherslur horfið í meðförum fjárlaganefndar. Þannig sé þetta ekki að finna í meirihlutaáliti fjárlaganefndar. Upp dúkkar síðan hæstv. fjármálaráðherra í útvarpsþætti, á Bylgjunni hygg ég að hafi verið, á helginni þar sem hann segir að sá skilningur manna að til standi að bjóða heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu út, alla vega á þessum þremur stöðvum sem á að leigja húsnæði undir, að minnsta kosti hluta úr árinu, fyrir 70 milljónir króna, sé í þá veru sem upphaflega var lagt af stað með, útboð og síðan þessi vegferð í átt til markaðsvæðingar heilbrigðisþjónustunnar. Hann styðji hæstv. heilbrigðisráðherra hvað þetta snertir.

Ég spyr formann fjárlaganefndar Alþingis hver sé hennar skilningur á þessu. Hvaða umræða hefur farið fram í fjárlaganefnd um þennan þátt? Eins og ég segi mun ég æskja þess að fá svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra áður en þessari umræðu lýkur. Og ég vil segja það við hæstv. forseta, mér er mjög mikil alvara þegar ég segi þetta: Ég ætla ekki að láta bjóða mér það sem þingmanni að þegar við erum að fjalla um fjárlög ríkisins hunsi hæstv. ráðherrar óskir um að koma og standa fyrir máli sínu og skýra hvaða markmið þeir hafa sett fyrir þeim fjárveitingum sem óskað er eftir að við samþykkjum. Ég sætti mig ekki við það. Ég mun ekki gera það. Ég er tilbúinn að standa hér í alla nótt og allan daginn á morgun þangað til ég fæ viðhlítandi svör. (Forseti hringir.) Hæstv. menntamálaráðherra kemur hér á staðinn og stendur fyrir sínu máli og það er vel og við ætlumst til þess að aðrir ráðherrar geri það líka þegar óskað er eftir viðveru þeirra. Þetta er enginn gamanleikur hér.