145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, það hélt áfram í sínum farvegi eins langt og ég man. Það er fyrst núna sem hinar gagnrýnu raddir eru að reisa sig, ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu, en í minni tíð sem heilbrigðisráðherra breyttist ekkert varðandi þennan farveg. Varðandi þessa rekstrarúttekt finnst mér öllu máli skipta hvað vakir fyrir mönnum. Vakir fyrir þeim að finna leiðir til að úthýsa og markaðsvæða? Ég er ekki sannfærður um að slíkt vaki ekki fyrir mönnum á sama hátt og mönnum brá í brún þegar hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um nýtt sjúkrahótel í Vatnsmýrinni, að nú þyrfti að setja nefnd til að kanna hvort það borgaði sig nokkuð að hafa það á vegum ríkisins.

Það er þetta sem ég set mikil spurningarmerki við. Varðandi kostnaðarvitundina greip um sig tískusveifla í Stjórnarráðinu á fyrri hluta tíunda áratugarins, að innleiða þyrfti kostnaðarvitund í heilbrigðiskerfinu til að koma í veg fyrir að fólk leitaði að óþörfu eftir ókeypis þjónustu. Það kunna að vera einhverjir einstaklingar sem gera það, en aldrei man ég eftir því að sitja í morgunkaffi nokkurs staðar, með hópi fólks þar sem einhver sagði: Hvað á maður að gera í dag, ætti maður að fara og láta kíkja á eyrun, nefið eða hnén? Menn gera það einfaldlega ekki til að leika sér, heldur vegna þess að þeim er illt í hnénu, þeir heyra illa eða eitthvað er að sjóninni. Þá leita menn til læknis og þetta er hin almenna regla. Það eru til einhverjar undantekningar frá þessari reglu (Forseti hringir.) en þær eru ekki á þann veg að Danir hafi séð ástæðu til að eyðileggja sitt góða kerfi þeirra vegna.