145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek eiginlega undir með hv. þingmanni. Ég held það væri til góðs að aðkoma ráðherranna væri tryggð við umræðuna til að varpa ljósi á hana. Að sönnu er það fjárlaganefndin sem ber þarna ábyrgð eftir að málið kemur til þingsins og við eigum ekki að vera feimin við að takast á um breytingar og tillögur til breytinga á fjárlögunum.

Þegar við komum með málið í þingið opnum við fjárlögin gagnvart samfélaginu. Fjárlagafrumvarpið verður opinbert, við verðum fyrir þrýstingi, ábendingum og það er ekkert óeðlilegt að fjárlögin taki breytingum í samræmi við það. Það er ýmislegt sem okkur yfirsést eða sem við vildum gera betur eftir almenna umræðu í þjóðfélaginu.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að ráðherrar verði viðstaddir umræðuna. Þegar eftir nærveru þeirra er leitað finnst mér vera lágmarkskrafa að þeir verði við því. Það er hægt að gera þá lágmarkskröfu til okkar sem tökum þátt í umræðunni að við sýnum hvert öðru tillitssemi og kurteisi og það á við um undirritaðan ekki síður en aðra eins og dæmin sanna hér í kvöld.