145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir góða ræðu þar sem hann dró fram átakamálin sem komið hafa fram um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Hann vék að Ríkisútvarpinu og hvaða afleiðingar það hefði ef RÚV fær ekki þær hækkanir sem við höfum beitt okkur fyrir. Hann vék að Landspítalanum og einnig hvaða afleiðingar það hefði af Landspítalinn fengi ekki að minnsta kosti 3 milljarða til viðbótar svo hann gæti staðið undir þeim skyldum sem við ætlumst til að stofnunin ræki.

Í þriðja lagi beindi hv. þingmaður sjónum að öryrkjum og öldruðum og þeim hópum þar innan sem lökust hafa kjörin. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gera eins og hv. þingmaður gerði, að reyna að stíga út úr heimi prósentunnar og inn í heim krónutölunnar og veruleikans, að hinar miklu prósentuhækkanir sem stjórnarmeirihlutinn hefur verið að hreykja sér af eru þegar allt kemur til alls 10 þús. kr. Hv. þingmaður setti það síðan inn í samhengi skattahækkana sem éta upp drjúgan hluta af þeirri hækkun.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði í hv. þm. Þorstein Sæmundsson sem sagði að umræðan hefði farið sífellt batnandi og að stöðugt væru að koma fram ræður með ábendingum og upplýsingum sem bættu umræðuna. Skil ég það svo á hv. þingmanni að nú sé að því komið að enn megi ekki bæta umræðuna?