145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, stjórnarliðar geta ekki skýlt sér á bak við Öryrkjabandalag Íslands. Það hefur haldið uppi mjög rökföstum og sanngjörnum málflutningi og bent á að verið sé að skilja lífeyrisþega eftir. Það er verið að taka pólitíska ákvörðun, með samþykkt óbreyttra tillagna stjórnarmeirihlutans, um að auka ójöfnuð á Íslandi. Ein háværasta krafa Öryrkjabandalags Íslands og Landssambands eldri borgara er nákvæmlega sú að hækkun greiðslna almannatrygginga verði afturvirk til 1. maí 2015.

Þróunin hefur verið sú að bæturnar hefðu átt að hækka núna við bætta stöðu ríkissjóðs. Lífeyrisþegar tóku svo sannarlega sinn skerf af hruninu, báru síst minni byrðar en aðrir í samfélaginu og ættu nú að fá leiðréttingar en bætt staða ríkissjóðs hefur ekki verið nýtt til að efla almannatryggingar heldur þvert á móti til að lækka veiðigjöld, hætta við framlengingu á auðlegðarskatti og til að lækka skatta hátekjufólks.

Við í minni hlutanum erum að reyna að leiðrétta hlut lífeyrisþega og okkur gengur illa að ná eyrum stjórnarliða.