145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:57]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Klukkan er að verða tvö og það eru auðvitað miklar fréttir að fyrirhugaður skuli vera alvarlegur fundur í allsherjar- og menntamálanefnd í fyrramálið og fullkomlega eðlilegt að hér sé ekki verið að funda fram í rauðabítið þegar svo háttar til. Við þurfum á því að halda að nefndarmenn verði árvökulir og vel hugsandi í fyrramálið þegar að þeim fundi kemur.

Það eru líka takmörk fyrir því hversu skynsamleg umræðan verður þótt ég verði að viðurkenna að í nótt er hún öllu hófstilltari en í fyrrinótt þar sem hún fór kannski stundum heldur of geyst, en ég hvet eindregið til þess að forseti segi okkur skýrt hverjar fyrirætlanir hans eru með tímalengd fundar.