145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:09]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta gríðarlega mikilvæg umræða. TiSA-umræðurnar spretta upp úr GATS-viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eftir að þær samningaviðræður fara út um þúfur. Þá taka tiltekin ríki sig saman, þ.e. ríkari hluti heimsins, til að reyna að sameinast um niðurstöður sem hinum verði síðan þröngvað til að undirrita. Hæstv. utanríkisráðherra hefur talað opinskátt um þetta. Það hefur komið fram í svörum ráðuneytisins. Á sama tíma og setið var í París að ræða um takmarkanir í útblæstri og mengun sátu menn í Genf undir regnhlíf TiSA til að ræða með hvaða hætti væri hægt að setja einstökum ríkjum skorður í þessum efnum. Það sem mér finnst síðan og það er rétt sem hv. þingmaður segir að ef við fáum slíkan grunn til að standa á sem neyðir okkur inn í ákveðnar lausnir verða hendur okkar bundnar. Þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu áður en svo gerist.

Varðandi einkavæðinguna í heilbrigðisþjónustunni er mikilvægt að taka þá umræðu. Hæstv. heilbrigðisráðherra, eins og ég skil þetta, gengur út frá því að það sé gott að láta einstaka stofnanir keppa sín í milli. Útboð fari fram og besta hugsanlega kostinum verði tekið. Ég held því fram að það myndist aldrei markaður á þennan hátt. Þegar rekstrarteymi er búið að taka við starfsemi af þessu tagi verður hún ekki auðveldlega tekin frá. Þá mun hún, ef menn vilja samkeppni, gerast á öðrum forsendum. Hún muni gerast með því að bítast um kúnnann sem verða sjúklingarnir. Þá er búin til þessi formúla að fjármagn fylgi sjúklingi. Síðan eru menn að rugla þessu saman við það að þegar við áætlum til Landspítalans eða annarra heilbrigðisstofnana, þá tökum við náttúrlega tillit (Forseti hringir.) til þess hve margir einstaklingar leita þangað inn. En munurinn er (Forseti hringir.) sá, og ég skal ljúka máli mínu, hæstv. forseti, að þarna er verið að byggja inn í kerfið samkeppnishvata. Það er hinn stóri munur.