145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:20]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vil ég þakka hæstv. forseta fyrir að koma þessum óskum á framfæri, en jafnframt langar mig til að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort honum finnist koma til greina að gera hlé á fundinum fram yfir hádegisverð og freista þess að fá hæstv. heilbrigðisráðherra til að koma til fundarins við okkur. Það er margt annað sem Alþingi gæti tekið til umfjöllunar. Ég nefni til dæmis skýrslu umboðsmanns Alþingis sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur afgreitt fyrir sitt leyti og málið bíður umræðu í þinginu. Það er ekki lífsspursmál að taka þá umræðu á þessari stundu, en ég vek athygli á því að það eru verðug viðfangsefni sem við gætum sinnt þar til við tækjum upp þráðinn að nýju í fjárlagaumræðunni.