145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við skulum hafa eitt á hreinu til forustumanna ríkisstjórnarinnar sem hér tala um laun aldraðra og öryrkja. Fram að þessum tíma, á öllu þessu kjörtímabili í tvö og hálft ár, hafa bætur almannatrygginga hækkað um 10 þús. kr. Um síðustu áramót (Gripið fram í.) komu 4 þús. kr. af þessum 10 inn, reyndar 3.400 kr. sem komu eftir skatt. Á sama tíma hækkaði matarskatturinn frá ríkisstjórninni og ýmsar aðrar hækkanir komu í framhaldi af því. Þessar 4 þús. kr. hurfu eins og dögg fyrir sólu.

Mér finnst það í raun og veru aumkunarvert og ég kenni í brjósti um forustumenn ríkisstjórnarinnar að þurfa að koma hér upp og lýsa þessu eins og þeir gera. (Gripið fram í.) Þeir eru að tala til fólks sem eftir aðgerðir þeirra 1. janúar og með svikunum um afturvirkar greiðslur á þessu ári og með svikum um að hækka ekki til jafns við kjarasamninga á næsta ári — þeir eru að tala til fólks sem þeir skammta 186 þús. kr. á mánuði. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Hæstv. fjármálaráðherra fær 6–7 þús. kr. og forsætisráðherra líka fær 6–7 þús. kr. (Gripið fram í.) í skatt af þeim 17 þús. kr. sem hér er verið að skammta. (Gripið fram í.) Ég held að forsætisráðherra þurfi að koma einu sinni enn í atkvæðaskýringu.