145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Austurríska skáldkonan Ingeborg Bachmann sagði einhvern tíma að sagan væri góður kennari, verst hve væru fáir nemendur. Það sætir eiginlega furðu að hlusta á þessar umræður eins og ekkert hafi í skorist á Íslandi á undanförnum árum. Hrunið er gleymt. Sú stefna sem fylgt var og ýtti okkur fram af brúninni er gleymd líka og síðan heyrum við hér fullyrðingar sem engan veginn standast.

Varaformaður fjárlaganefndar fullyrti áðan að á síðasta kjörtímabili hefði hlutfallslega verið skorið mest niður til velferðarmála, til innviða samfélagsins. (Gripið fram í: Það er rétt.) Þetta er rangt. Það var skorið hlutfallslega mest niður til fjárfestinga, t.d. í samgöngumálum þar sem var skorið niður um helming. Þetta er staðreynd. Það var skorið hlutfallslega minnst niður til velferðarmála. (Forseti hringir.) Það er staðreyndin og hæstv. fjármálaráðherra sem hneykslast yfir því að menn í blússandi góðæri (Forseti hringir.) séu hér dögum saman að rífast um skiptingu verðmætanna, um hvað heldur hann að stjórnmál snúist? (Forseti hringir.) Um hvað á þessi umræða að snúast? Um hvað snýst sú atkvæðagreiðsla sem við senn förum í? (Forseti hringir.) Um skiptingu verðmætanna, um hvort sú skipting sé réttlát eða ranglát. (Forseti hringir.) Í þessu frumvarpi birtist ranglát skipting.