145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Vegamál. Það er ástæða til að hafa mjög miklar áhyggjur af þeim málaflokki. Þessi ríkisstjórn er búin að taka ákvörðun um að hafa þessi mál ekki í forgangi. Það er áhyggjuefni í fyrsta lagi vegna þess að viðhaldi á vegum er ábótavant og núna þegar ferðamannastraumur hefur aukist jafn mikið og raun ber vitni á undanförnum árum er það orðið stórkostlegt öryggismál að auka fé til vegamála.

Þá verð ég líka að nefna í öðru lagi að það er með ólíkindum að nýframkvæmdir eru nánast engar. Þær nýframkvæmdir sem hafa farið af stað á þessu kjörtímabili eiga rætur sínar að rekja til ákvarðana fyrri ríkisstjórna.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ef á ekki illa að fara þannig að við sitjum uppi með stöðu sem verður erfitt að vinda ofan af þá verða menn að fara að setja aukið fjármagn í vegamálin. Menn hafa ekki lagt fram neina samgönguáætlun og það er engin samgönguáætlun í gildi, í því kristallast (Forseti hringir.) hvernig fyrir þessum málaflokki er komið. Ég held að menn sjái ekki fyrir endann á því hvernig þetta getur allt saman farið ef ekkert verður að gert.