145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Beiðni yfirstjórnar Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur verið vel rökstudd og ekki hrakin á nokkurn hátt af stjórnarmeirihlutanum. Þess vegna er eðlilegt að verða við henni. Hafi menn þurft frekari rökstuðning kom Kári Stefánsson til hjálpar í ágætri blaðagrein í síðustu viku.

Vegna ummælanna sem hér voru látin falla um forstjóra Landspítalans, sem komu í framhaldi af ummælum formanns fjárlaganefndar um sama mann, held ég að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að fara að greiða óþægindaálag og bætur yfirstjórnendum opinberra stofnana sem þurfa að sitja undir þeim ósmekklegheitum sem þessi stjórnarmeirihluti telur sér sæma að demba yfir nafngreint fólk í forustu fyrir opinberum stofnunum, sem er að reyna að leiða starf í almannaþágu. Það fólk á ekki skilið að sitja undir svona trakteringum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)