145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það sem er sorglegt við þetta mál er að ég held að allir geri sér grein fyrir því, eins og fram hefur komið í máli margra stjórnarliða, að það þurfi meiri peninga í Landspítalann. Það er nefnilega þannig að þeir sem eru meiddir og sjúkir þurfa aðhlynningu strax og Landspítalinn þarf aðhlynningu strax. En hér er talað um popúlisma þegar menn vilja mæta því ákalli stjórnenda spítalans um þá peninga sem upp á vantar.

Hvernig ætli staðan verði eftir eitt ár þegar menn í stjórnarliðinu koma hingað með peninga og gera sig heilaga í framan, á kosningavetri, og hafa þá skyndilega fundið alveg gríðarlegan skilning á nauðsyn þess að setja fjármagn í alls konar verkefni? Auðvitað sjá það allir að hér er verið að hlaða rækilega í kosningaloforðin næsta vetur. Það er verið að fægja skóflur fyrir skóflustungur og brýna skæri fyrir borðaklippingar. Það er augljóst mál en það er sorglegt að það skuli vera gert með Landspítalann. Ég segi já.