145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ástæða þessarar tillögu er sú að nú er farið að sneyðast um tíma í þingstörfunum og þá setur stjórnarmeirihlutinn á dagskrá mál sem er hér til 3. umr., um breytingar á Þróunarsamvinnustofnun Íslands, sem skiptir í sjálfu sér engu sérstöku máli hvort afgreiðist einum mánuðinum fyrr eða seinna, á sama tíma og brýn mál bíða umræðu og úrlausnar. Nú, eftir tveggja og hálfs árs bið, er loksins farið að glitta í að ríkisstjórnin leggi eitthvað til í húsnæðismálum og hér bíður umræðu frumvarp um húsnæðisbætur frá hæstv. félagsmálaráðherra. Það er fullkomlega óvíst að það mál komist til umræðu eða til nefndar ef það verður ekki tekið fram fyrir á dagskránni. Af hverju erum við ekki að ræða hér eitthvað sem snertir hagsmuni fólksins í landinu? Það er fullt af fólki búið að bíða eftir úrlausn í húsnæðismálum allan starfstíma þessarar ríkisstjórnar og það er orðið mjög brýnt að hefja umræðu um húsnæðismál. Þess vegna leggjum við fram þessa tillögu þannig að við getum einbeitt okkur (Forseti hringir.) núna á þeim örlitla tíma sem eftir er til jóla sem ekki þarf að fara í fjárlög og fjárlagatengd málefni, að málum sem skipta raunverulegu máli fyrir fólkið í landinu.