145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við höfum beðið spennt í allt haust og reyndar í allan fyrravetur líka eftir því að hæstv. húsnæðismálaráðherra talaði fyrir húsnæðisfrumvörpum sem hún hefur tönnlast á að hún hyggist leggja fram.

Nú hefur eitthvað af þeim loksins litið dagsins ljós og þá halda félagar hennar í stjórnarmeirihlutanum áfram að ýta þeim til hliðar og leyfa henni ekki að tala fyrir þeim. Hún var meira að segja að reyna í atkvæðaskýringum í gær að koma að einhverju efni um þessi frumvörp sín. En nú á hún ekki að fá að gera það vegna þess að þeim liggur svo mikið á að tala um Þróunarsamvinnustofnun og menn tala um að eitthvert hagræði sé í því máli. En það stendur einmitt alls staðar að það sparist ekkert, það gerist ekki neitt (Gripið fram í: Það eru samlegðaráhrifin.) annað en það að ein fremsta stofnun (Forseti hringir.) landsins verði lögð niður af pólitískum, ég veit ekki einu sinni hvað ég á að kalla það, einhverri pólitík.