145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ætli ég haldi ekki bara áfram umræðunni þar sem frá var horfið í andsvörum og ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um tekjuskattskerfið. Ég hugsa að ég verði í breiðu línunum í þessu framsöguerindi með nefndaráliti mínu. Ég upplifi ekki stóran ágreining um mjög marga þætti frumvarpsins í meðferð nefndarinnar en það er ágreiningur um ákveðna skattapólitík. Hann var ágætlega útlistaður í framsögu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Ég deili þeim áherslum að stóru leyti, þó ekki öllu. Ég taldi ástæðu til að skrifa mitt eigið álit út frá áherslum mínum og Bjartrar framtíðar.

Við deilum þeim áhuga ríkisstjórnarinnar að vilja einfalda skattkerfið og hafa það skilvirkt og gagnsætt og fólki skiljanlegt og þar fram eftir götunum. En hins vegar teljum við að það sé ekki eina markmiðið. Það er ekki eina markmiðið að afla tekna fyrir ríkissjóð með einföldu skattkerfi. Skattkerfið, eins og kom ágætlega fram í umræðunum hér áðan, er líka tekjujöfnunartæki. Tekjujöfnuður er góður. Það er gott markmið líka. Hann má kannski ekki verða svo mikill að skattkerfið verði íþyngjandi fyrir þá sem vinna kannski meira en aðrir. Menn verða náttúrlega að njóta afraksturs dugnaðar síns. Skattkerfið má ekki vera letjandi að því leyti til. En það er hins vegar hagkvæmt og gott að menn nái ákveðnum tekjujöfnuði, að dreifa gæðunum í samfélaginu. Fátækt kostar, fyrir utan að vera mjög óréttlát og íþyngjandi fyrir þá sem lenda í henni.

Við í Bjartri framtíð teljum að tekjuskattskerfið sé langhentugast til tekjujöfnunar. Tekjuskattskerfið er hentugra en bótakerfið til dæmis, hentugra en virðisaukaskattskerfið. Stundum er talað um virðisaukaskattskerfið sem einhvers konar vettvang sem ætti að nota til tekjujöfnunar. En við teljum að tekjuskattskerfið sé besta kerfið til að ná þeim markmiðum. Og þá getum við ekki verið sammála þeirri stefnumörkun í þágu einföldunar að fækka þrepunum úr þremur í tvö. Við teljum að það minnki tekjujöfnunaráhrif tekjuskattskerfisins og getum því ekki stutt það. Ég sjálfur, þegar ég var í minni hluta á þinginu á síðasta kjörtímabili og ríkisstjórnin þáverandi tók upp þetta þrepaskipta kerfi, ætlaði aldeilis að vera á móti því vegna þess að ég er svolítið svag fyrir sjónarmiðum um einfalt skattkerfi. Ég lagðist inn á Datamarket og opnaði excel-skjal og ætlaði að reikna mig alveg í gegnum þetta og koma hér upp vopnaður tölum og mínum eigin útreikningum um það að millistéttin í landinu mundi fara ægilega illa út úr því að taka upp svona þrepaskipt kerfi. En að sjálfsögðu komst ég að því af eigin raun, eftir að hafa reiknað til klukkan fjögur um nóttina, að það var bara ekki rétt. Þetta er býsna hentugt kerfi, þrepaskipt kerfi, til að hlífa þeim sem maður vill hlífa, til að ná í meiri peninga af þeim sem eiga mjög mikið.

En ég held hins vegar að í þrepaskiptu kerfi þurfi menn að vera svolítið vakandi fyrir viðmiðunarmörkunum. Það sem ríkisstjórnin er að gera núna er að taka bara miðjuhópinn og setja hann til jafns við þennan sem er í lægsta þrepinu, gera eitt þrep úr því og svo er eitt hærra þrep. Ég hefði talið skynsamlegra, til þess að reyna að viðhalda markmiðum um tekjujöfnuð betur, að hækka viðmiðunarmörkin og reyna frekar að láta hæsta þrepið ná til þeirra sem hafa virkilega háar tekjur. Ég held að það sé ekkert þar núna, þetta eru ekkert virkilega háar tekjur sem hæsta þrepið er í. Hækka viðmiðunina við miðþrepið til þeirra sem hafa kannski í kringum 600–700.000 kr. Fara hærra með þetta. Ná þar með í meiri peninga hjá þeim sem eru virkilegir auðmenn í samfélaginu. Nota miðþrepið til þess að stjórna því hvað við leggjum mikið á hina raunverulegu millistétt og svo lægsta þrepið til að hlífa þeim sem hafa mjög lítið milli handanna. Ég held að það hefði verið betri leið.

Síðan er það hitt, sem óneitanlega liggur í eðli þessarar ákvörðunar, að þetta er náttúrlega bara skattalækkun á ákveðinn hóp. Auðvitað finnur sig enginn stjórnmálamaður sérstaklega mikið í því að fara af hörku gegn lækkun skatta vegna þess að þetta er í eðli sínu eitthvað sem flestir vilja. Það vill enginn vera með allt of miklar álögur á almenning. Hér er um eitthvað að ræða sem var talað um í kjarasamningum. En engu að síður verð ég að segja að mér finnst þetta óskynsamleg skattalækkun. Mér finnst hún illa tímasett. Mér finnst þetta lykta af sams konar hagstjórnarmistökum og hér hafa verið gerð áður. Það er ágætlega rakið í áliti meiri hlutans og öðrum plöggum sem við þingmenn höfum séð að það eru spár fyrir hendi um mikla uppgangstíma. 4,5% hagvöxtur á þessu ári og 3,5% hagvexti spáir Hagstofan á næsta ári. Miklar atvinnuvegaframkvæmdir, aðallega í stóriðju og eins í ferðaþjónustu í uppbyggingu gistirýma til dæmis. Mikill vöxtur í neyslu áætlaður. Það eru ýmsir mjög góðir utanaðkomandi þættir sem virka vel inn í hagkerfið, eins og til dæmis mjög lágt eldsneytisverð sem við njótum góðs af, hefur meðal annars áhrif á að verðbólga er mjög lág. Á þessum tímapunkti, svo að ekki sé talað um kjarabæturnar sem eru í spilunum, launahækkanirnar sem samið var um — og áhöld eru um hvort atvinnulífið, þjóðfélagið, geti staðið undir — er þá rétt að fara í tekjuskattslækkun? Samkvæmt mínum kokkabókum — og það sem maður lærði alltaf og hefur haft til hliðsjónar — ber þeim sem bera ábyrgð á efnahagsstefnunni að vera leiðinlegir þegar partíið byrjar, reyna að draga úr þenslu. Þegar kreppir að á að grípa til örvandi aðgerða. Skattalækkun er náttúrlega takmörkuð gæði. Maður grípur ekki til hennar alltaf og ítrekað. Það verður að vera einhver langtímasýn í þessu. Ég hefði haldið að við ættum að tímasetja svona skattalækkanir í tekjuskattinum betur. Það ætti frekar að geyma þær þangað til kreppir að.

Ég held að við getum líka vel notað þann pening sem annars kæmi inn af þessum tekjuskatti sem er um 5 milljarðar núna, sem tekjuskattslækkunin nemur — það er allnokkuð og safnast upp á nokkrum árum — til nauðsynlegrar uppbyggingar á innviðum samfélagsins. Opinber fjárfesting er allt of lítil. Það kemur fram í fylgiriti við fjárlagafrumvarpið að opinber fjárfesting heldur ekki í við afskriftir sem þýðir að eignir ríkisins, eignir hins opinbera, eru að rýrna. Það er auðvitað bara lántaka og ósjálfbær meðferð ríkisfjármála, ósjálfbær efnahagsstefna. Og að vera að lækka tekjuskattinn og færa þar með tekjur úr ríkissjóði á þessum tíma, þegar svona mikil þensla er, þegar svona miklar kjarabætur eru, þegar svona mikil þörf er á fjárfestingu — ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt. Ég held að það sé bara alls ekki skynsamlegt. Það kom til dæmis fram umsögnum frá aðilum á vinnumarkaði fyrir nefndinni. Menn sögðu að þetta væri illa tímasett.

Ég held að ríkisstjórnin hefði ekki átt að leggja upp með þessar áherslur. Hún byrjaði á þessu, að lækka tekjuskattinn hér á sínu fyrsta þingi, og hefur verið að þessu. Ég upplifi ekki mjög sterka kröfu um það í samfélaginu að menn færu í þetta. Eftir miklar þrengingar upplifði ég það frekar að farið yrði í að létta vinnuálagi af fólki. Fólk er algerlega útkeyrt í velferðarkerfinu. Það sést til dæmis á tölum um vinnustundir á spítölum. Ég held að það hafi verið krafa um að menn færu í að gera við hús og byggja vegi, byggja upp innviði velferðarkerfisins eftir þessa tíma þar sem allt hafði verið látið reka á reiðanum. Ég heyrði engan sem vonaði að þegar við kæmumst upp úr kreppunni yrðu skattar lækkaðir um einhverjar fjárhæðir sem skipta í heimilisbókhaldi hvers og eins kannski ekki svo miklu máli, sérstaklega ekki í ljósi þess að kjarabæturnar eru að verða mjög miklar og allt það sem ég rakti áðan sem er fólki og heimilum hagfellt. Allt snýst þetta um tímasetningar. Á þessum tímapunkti er þetta ekki skynsamlegt. Við eigum að eiga svona inni fyrir verri tíma.

Ég fjalla um það í nefndarálitinu mínu að ég hefði talið að markmið um einföldun skattkerfisins ætti mjög vel við þegar kæmi að virðisaukaskattskerfinu. Ríkisstjórnin hefur verið að tala mikið um einföldun á skattkerfinu. Mér finnst svolítið merkilegt að sjá ekki þessa áherslu þá í ríkari mæli í virðisaukaskattinum. Mér finnst það vera eitthvað sem virkilega ætti að skoða, hvort ekki ætti að taka upp eitt þrep í virðisaukaskatti. Ég er á því að það ætti að gera. Ég held að það væri ekkert auðvelt að búa til samkomulag um það við almenning í landinu og vinnumarkaðinn og allt þetta. En ég held að það ætti að stefna að því. Byrja að tala um það. Það held ég að yrði raunverulega góð einföldun fyrir almenning og atvinnulíf í landinu og alla sem þurfa að standa skil á þessu. Við erum ítrekað að lenda í því í nefndinni að við erum endalaust að leysa einhverjar flækjur sem koma upp í þessu virðisaukaskattskerfi. Nú erum við til dæmis að leysa flækjuna sem hefur ítrekað verið hjá þeim sem selja áfengi, hafa hingað til kannski verið með tvo vökva, hvorn í sínu þrepinu, í sama glasinu. Meiri hluti nefndarinnar bjó til nýja flækju þrátt fyrir að hún ætlaði að einfalda hlutina í síðasta bandormi, fyrir ári, þegar allt í einu voru komin mismunandi virðisaukaskattsþrep á náttúrulegt bað og önnur böð þannig að baðstaðir sem voru með ólíkar tegundir af baði voru að borga í mismunandi þrepum.

Núna erum við að reyna að leysa flækju hér í þessum bandormi sem snýst um tegundir almenningssamgangna, þegar aðilar eru með almenningssamgöngur eins og skólaakstur með höndum og láta annan sjá um þann akstur þá á það líka að vera án virðisaukaskatts. Það eru endalaust að koma upp einhverjar flækjur í þessu. Við erum sem betur fer líka að leysa eina í þessu frumvarpi sem snýst um að leiðsögumenn verði líka í 11% eins og restin af ferðaþjónustunni. Þetta eru ótrúlegar flækjur og ég held að þetta sé letjandi.

Ég hef ekki mikla trú á því að við eigum að nota virðisaukaskattskerfið til tekjuöflunar. Ég held að það sé ekki hentugt. Ég held að ef við förum með neysluvörur í lágt þrep munum við einfaldlega færa þeim sem kaupa mjög mikið mjög mikinn pening. Það er ekki góð tekjujöfnunarleið, finnst mér. Miklu betra að gera það í gegnum tekjuskattskerfið og mögulega einhverjar aðrar leiðir. Og við eigum að stefna að því að hafa eitt þrep í virðisaukaskatti. Mér finnst ríkisstjórnin ekki vera neitt mikið að stefna að einföldun þegar hún er ekki að ræða um þetta. Mér finnst holur hljómur í einhverju einföldunarmarkmiði þegar virðisaukaskattskerfið er eins og það er og þegar skrefin til einföldunar í virðisaukaskattskerfinu eru svona lítil.

Og svo er nú eitt sem mér finnst alveg rakinn vitnisburður um að ríkisstjórnin er ekki að einfalda skattkerfið. Það er hvernig meðferðin eða misnotkunin hefur verið á tryggingagjaldinu. Svo að sanngirni sé gætt er það kannski ekki bara verk þessarar ríkisstjórnar að hafa freistast til að seilast inn í tryggingagjaldið. Þetta hefur verið þróun yfir eitthvert árabil. En ég vil þó segja að eftir að uppgangurinn hófst af einhverju viti skapaðist tækifæri og hefur fyrir löngu skapast til að koma tryggingagjaldinu í ásættanlegt horf. Til þess að leiðrétta það. Hvað er tryggingagjaldið? Tryggingagjaldið er gjald sem atvinnulífið greiðir til að fjármagna ýmis nauðsynleg verkefni á vinnumarkaði og í almannatryggingakerfum. Fæðingarorlofssjóður er dæmi um einn lið sem er fjármagnaður af sérstökum stofni í tryggingagjaldi, atvinnuleysisbætur annar, starfsendurhæfing, jöfnun á örorkubyrði almenna lífeyrissjóðakerfisins — þetta á allt að vera þannig að þarna séu bara afmarkaðir hlutar gjaldsins sem renna til afmarkaðra verkefna. Ríkisvaldið þurfti að hækka tryggingagjaldið eins og þið vitið mjög mikið þegar atvinnuleysi jókst mjög mikið eftir hrunið, hækka það umtalsvert. Það var gert í samvinnu við atvinnulífið og öllum var ljóst að þyrfti að gera það. Síðan fer atvinnuleysið niður en tryggingagjaldið lækkar ekki. Það má alveg halda því fram, aðilar í atvinnulífinu hafa haldið því fram, að bara þetta nemi því að ríkið sé að taka inn í bakdyramegin á mjög ógagnsæjan hátt 25 milljarða á ári, með því að láta tryggingagjaldið ekki lækka til jafns við atvinnuleysi.

Spurningin er alveg sú sama, nema bara með öfugum formerkjum, og ég var að velta fyrir mér varðandi tekjuskattslækkunina. Að láta tryggingagjaldið ekki lækka þegar atvinnuleysi lækkar svona mikið er alveg ótrúlegur skortur á framsýni. Hvað gerum við þegar kreppir að næst? Hvað gerum við þegar atvinnuleysi fer upp næst? Þá erum við búin að vera að viðhalda þessu háa tryggingagjaldi alveg frá síðasta atvinnuleysi og höfum ekkert svigrúm til að hækka það neitt til að taka þann skell ef hann kemur. Hann kemur örugglega einhvern tímann. Við þurfum að hafa borð fyrir báru. Þannig að tryggingagjaldið verður að fara niður í góðæri til jafns við atvinnuleysið til að hægt sé að fara með það upp í samvinnu við atvinnulífið þegar atvinnuleysið vex. Annars er þessi gjaldstofn ónýtur þegar kreppir að. Þetta er mjög alvarlegur skortur á framsýni og fyrirhyggju að mínu viti, fyrir utan hvað þetta er ógagnsætt, að vera að sækja tekjur í ríkissjóð bakdyramegin og færa og velta nauðsynlegum verkefnum sem tryggingagjaldið á að dekka yfir á aðra aðila. Þetta eru brellur sem maður áttar sig ekki á alveg strax. Maður þarf aðeins að fatta þetta.

Tökum Fæðingarorlofssjóð. Hér var ákveðið í þessum sal að lengja fæðingarorlofið í skrefum. Ríkisstjórnin gerir það eitt af sínum fyrstu verkum að hætta við það. Ríkisstjórnin hefur almennt hætt við mjög marga hluti. Hún hætti við þetta og gerði þá hlut Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldinu minni samkvæmt því. En lækkaði tryggingagjaldið? Nei. Það lækkaði ekki. Þessi aðgerð skilaði ríkissjóði bara peningi í gegnum almenna hluta tryggingagjaldsins í aðra hluti. Hér var bara farið inn í Fæðingarorlofssjóð, náð í pening og hann notaður í annað. Hvert fara verkefnin? Þarna átti að lengja fæðingarorlofið. Verkefnið er eftir sem áður fyrir hendi. Það þarf að brúa bilið milli leikskóla og fæðingarorlofs. Það átti meðal annars að gera með þessu. En hvert fer það verkefni við þessa breytingu? Ríkissjóður fór þarna og náði sér í pening en verkefnið fer yfir á sveitarfélögin. Sveitarfélögin þurfa að axla þetta verkefni með því að reyna að lækka aldur þeirra, með ærnum kostnaði, sem fara inn á leikskóla. Með styrkjum til dagmæðra. Þau verða að brúa þetta bil. Krafan er á sveitarfélögin. Þannig að þarna spilar ríkið svolítið ljótan leik í gegnum tryggingagjaldið, nær sér í pening með því að plokka af verkefni sem er mjög nauðsynlegt fyrir atvinnulífið sem er fæðingarorlof, mylur undan því öllu saman, nær sér í upp undir 10 milljarða í gegnum þessa brellu og veltir verkefninu yfir á aðra aðila, sveitarfélögin.

Þeir gerðu þetta líka í fyrra, þegar menn styttu hámarkstíma atvinnuleysisbóta og þar með þurfti minni pening úr tryggingagjaldinu til að fjármagna atvinnuleysisbætur. Lækkaði tryggingagjaldið til samræmis við það? Nei, auðvitað ekki. Sama brella. Peningurinn tekinn, látinn renna í annað innan ríkissjóðs. Hvert fór verkefnið, að sinna þessu fólki sem var langtímaatvinnulaust? Yfir á sveitarfélögin, aftur. Það er verið að gera þetta. Mér finnst þetta ekki heiðarleg skattheimta. Mér finnst þetta ekki einföld skattheimta. Mér finnst þetta mjög ógagnsæ skattheimta. Það tekur langan tíma að skilja hvað er í gangi hérna. Og þetta er ekki fyrirhyggja. Þetta er ekki gott. Þetta gjald er hugsað til að fjármagna hluti á vinnumarkaði og það verður að geta sveiflast upp og niður eftir því hvernig árar. Það er verið að eyðileggja það. Svo er þetta líka bara vondur skattur. Þetta er skattur sem leggst á öll laun, hann leggst þungt, eins og sýnt hefur verið fram á, á lítil og meðalstór fyrirtæki sem við þurfum að rækta. Þarna liggur meginhluti vinnuaflsins. Þarna liggja nýsköpunarfyrirtækin, sprotafyrirtækin og allt sem getur aukið fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við eigum ekki á þessum góðæristímum að vera að skattleggja þessi fyrirtæki sérstaklega. Þannig að ég geri verulegar athugasemdir — þótt út af fyrir sig sé ekkert í þessu frumvarpi núna, ákvarðanirnar voru allar teknar áður — við að ekkert sé um tryggingagjaldið í bandorminum núna, það sé ekki verið að lækka það. Mér er eiginlega alveg sama um þessi svör þegar sagt er að aðilar á vinnumarkaði, í gegnum kjarasamninga, hafi ekki viljað lækka tryggingagjaldið. Aðilar á vinnumarkaði ráða ekki skattstefnunni. Það er eftir sem áður óskynsamlegt í mínum huga að lækka ekki tryggingagjaldið til samræmis við lækkandi atvinnuleysi þó svo að ekki hafi verið beðið um það í kjarasamningum.

Ég sakna þess líka að í frumvarpinu er ekkert reynt frekar en áður að taka á mjög ósanngjarnri tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það má ræða tryggingagjaldið í því sambandi. Fyrst sífellt er verið að velta verkefnum sem tryggingagjaldið á að dekka yfir á sveitarfélögin, og ég nefndi hér tvö dæmi áðan, ættu þá ekki sveitarfélögin að fá hlutdeild í tryggingagjaldi eða afslátt af því? Það hafa borist fregnir af því að í ívilnunarsamningum við tiltekna stóriðju sé alfarið gefinn afsláttur af tryggingagjaldi. Fyrirtækið þarf bara ekki að borga tryggingagjald. Þannig að hér er fordæmi. Af hverju ættu menn þá ekki að veita sveitarfélögunum slíkan afslátt til samræmis við verkefnin sem þau sinna sem tryggingagjaldið ætti öðrum kosti að dekka? Sívaxandi straumur ferðamanna ætti að skila tekjum. Sveitarfélögin hafa ýmsum skyldum að gegna gagnvart uppbyggingu í ferðaþjónustu. Ég held að það sé orðið mjög áríðandi að smíða sveitarfélögunum tekjustofna af ferðaþjónustu. Það er ekkert gert í þessu frumvarpi til að takast á við það. Það þarf að mæta kostnaði sveitarfélaga vegna þeirra íbúa sem borga nánast eingöngu fjármagnstekjuskatt og ekkert útsvar en njóta samt þjónustu sveitarfélaganna. Á þessu þarf að taka og hefur lengi verið kallað eftir því. Sterk rök mæla líka með því að sveitarfélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt, hvort heldur er vegna framkvæmda eða kaupa á vörum eða þjónustu, enda geta sveitarfélög ekki nýtt sér innskattsheimildir. Svo þarf líka að skoða hvort það sé sanngjarnt að sveitarfélög greiði fjármagnstekjuskatt til ríkisins. Ég hef í sjálfu sér ekkert markað mér endanlega afstöðu í öllu þessu, ég er bara að nefna hér nokkur dæmi um eitthvað sem ég tel mjög aðkallandi að fara að skoða. Ég held að við getum ekkert skilað auðu gagnvart þeirri kröfu sem verður sífellt háværari frá sveitarfélögunum að þetta verði skoðað. Það er mjög skrýtið að upplifa það að við batnandi tíma í ríkisrekstrinum og hagfelld skilyrði eru sveitarfélögin hins vegar, sem hafa verið að taka á sig sívaxandi skyldur, í æpandi vandræðum. Það er eitthvað mikið að í þessu. Ég held að ríkisvaldið verði að hætta þessum leik að velta jafnvel í gegnum mjög ógagnsæjar leiðir og með einhvers konar barbabrellum verkefnum yfir á sveitarfélögin án þess að tekjur komi.

Ég fagna því að afnema eigi tolla. Það er gott. Ég vil líka afnema tolla á kartöfluflögum, svo að því sé til haga haldið. Ég vil afnema tolla á miklu meiru en hér er gert og hef spurt af því af hverju ekki séu afnumdir tollar á matvælum líka fyrst verið er að afnema tolla til hagsbóta fyrir neytendur á alls konar nauðsynjavörum, fötum og skóm. Af hverju ekki mat? Ég hef átt ágætar samræður við bændur í þessu landi um það til dæmis af hverju í ósköpunum tollur er á lambakjöti. Hver er samkeppnin í lambakjöti? Ég held að hún komi aðallega frá Nýja-Sjálandi. Það er nú aldeilis fjarlægðarverndin sem við njótum í samkeppni við Nýja-Sjáland. Það er algerlega hinum megin á hnettinum. Það er afskaplega lítil samkeppni til dæmis í lambakjöti sem er okkar helsta landbúnaðarafurð. Ég er að nefna hér dæmi um landbúnaðarafurðir sem sterk rök mundu mæla með að við ættum að hafa tolla á til að vernda. En ég held að það sé algerlega augljóst að bændur vilja fara að fá tollfrjálsan útflutning og eru vel tilbúnir til að gefa eftir tollverndina hér. Það er ekki mikil samkeppni við þessa gæðavöru frá nágrannalöndunum. Bændur eru farnir að horfa miklu meira á útflutning með þessa vöru. Þetta umhverfi er að breytast mjög ört. Þetta verndartollafyrirkomulag í heimi þar sem sívaxandi umframeftirspurn eftir matvælum mun ríkja og við þurfum svo miklu, miklu minna að hafa áhyggjur af offramleiðslu þá er fáránlegt að vera með þessa tolla á mat. Þetta er bara vond framkoma við neytendur. Dæmin sýna að þar sem tollar hafa verið felldir niður, eins og á tómötum, gúrkum, hafa íslenskir bændur spjarað sig vel í samkeppninni og íslenskir neytendur velja íslenskt, velja ferska, góða matvöru. Sem betur fer er hún það. Hér eigum við að vera miklu óhræddari og stíga skrefin, vera framsýn og láta af tollum á mat á sama hátt og verið er að láta af tollum á ýmsum mikilvægum vörum í þessu frumvarpi.

Ég hef farið í gegnum þetta, eitt og annað, styð ýmislegt eins og ég hef hér tæpt á, eins og það að leiðsögumennska í ferðaþjónustu sé í 11%, áfengi fært í lægra þrep og áfengisgjaldið hækkað á móti, ýmislegt í þeirri útfærslu sem þyrfti að ræða en ég styð þá niðurstöðu sem náðist. Eins varðandi skólaaksturinn og almenningssamgöngur og það allt saman. Með bílaleigurnar hefur auðvitað verið á dagskrá lengi að afnema þessa heimild til að gefa eftir vörugjöld á bílaleigubíla. Nú ættu bílaleigurnar að fá nógu góðan tíma til að aðlaga sig að þessu með þessum aukna fresti sem er gefinn. En ég vil líka segja að ég held að það sé mjög aðkallandi að skoða þetta rekstrarumhverfi á bílaleigum á Íslandi og í samhengi við þau markmið sem við setjum okkur í ferðaþjónustu. Það er mjög mikilvægt að bílaleigur hér og verð á bílaleigubílum sé samkeppnishæft við önnur lönd og ég held að bílaleigur séu algerlega nauðsynlegar í að ná þeim markmiðum að dreifa ferðamönnum um landið, sem er nú eitt af höfuðmarkmiðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þá verðum við að hafa öflugar bílaleigur. Við þurfum að gæta þess mjög að tryggja bílaleigum, alveg eins og hópferðabílum og leigubílum, viðunandi rekstrarskilyrði. Ég held að þetta sé engu að síður skynsamlegt skref sem stigið er í frumvarpinu. Ég fagna því líka að skattur á leigu er lækkaður. Það held ég að sé mjög gott skref og ég læt það verða mín síðustu orð. Takk fyrir.