145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekkert brjálæðislega heitur yfir því að fækka þrepunum úr þremur í tvö, ég tel betra að hafa þau þrjú. Ég held að þannig sé hægt að ná betur tekjujöfnunaráhrifum og skynsamlegra sé að skoða frekar viðmiðunarupphæðirnar í hverju þrepi. Í sjálfu sér er ríkisstjórnin að gera það núna. Hún er einfaldlega að færa miðþrepið niður í sömu upphæð og lægsta þrepið.

Mér finnst, eins og ég rakti í ræðu minni, að ef menn vilja stefna að einföldun þá sé tekjujöfnunarmarkmiðið mikilvægara í tekjuskattskerfinu en annars staðar, mikilvægara en einföldunin. Mér finnst við ekki flækja það svo mikið þó að það séu þrjú þrep fremur en tvö. Hér er einhvers konar ás sem við erum að tala á. Auðvitað fara tekjujöfnunaráhrifin ekkert algerlega út úr tekjuskattskerfinu, eins og hv. þingmaður rekur ágætlega, þó svo að þrepunum verði fækkað úr þremur og niður í tvö. Við höfum eftir sem áður persónuafsláttinn sem er til tekjujöfnunar og ágætt dæmi um vel heppnaða aðgerð á því sviði.

Við erum að tala um einhvers konar áherslur. Ég veg þetta og met og segi: Einföldunin á frekar við í virðisaukaskattskerfinu og hún á við þegar við umgöngumst tryggingagjaldið. Þar er búið að flækja skattkerfið mjög mikið að mínu viti. Ég mundi segja varðandi einföldun að forgangsröðun mín væri öðruvísi. Varðandi tekjujöfnuðinn vil ég að hann sé meiri og að við höfum öflugri tæki í tekjuskattskerfinu en ríkisstjórnin virðist vilja hafa.