145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir þetta afhjúpa gersamlega málflutning hæstv. ríkisstjórnar.

Það hefur komið fram aftur og aftur hér í þessum ræðustól að það virðist vera skýr og góður vilji hjá mjög mörgum þingmönnum stjórnarliðsins til þess að koma til móts við hógværar óskir aldraðra og öryrkja um að þeir fái eins og allir aðrir hópar í samfélaginu afturvirkar bætur. Þessum þingmönnum hefur verið talin trú um það af hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra að það þurfi að standa í ístaðinu og ekki séu til peningar. Hvað kemur svo í ljós? Á sama degi og það er bersýnilega enginn vilji til þess af hv. þingmönnum stjórnarliðsins að koma til stuðnings við tillögu stjórnarandstöðunnar um að veita 6,5 milljarða til bóta til aldraðra og öryrkja þá er verið að samþykkja breytingar á skattalögum, á tekjuskatti, þar sem verið er að færa þeim sem langmestar tekjur hafa langmest. Það kostar nákvæmlega það sama, þ.e. það leggur sig á ári á um það bil 6–7 milljarða sem verið er að færa þeim tekjuhærri en á sama tíma eru ekki til peningar til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Þetta eru nánast sömu upphæðir.

Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá en að verið sé að halda öldruðum og öryrkjum niðri til þess að geta með hinni hendinni rétt þeim sem ekki þurfa á neinu að halda jafn stórar fúlgur og aldraða og öryrkja vantar. Er það ekki um þetta sem skurðlínan hér á Alþingi hverfist? Þetta er meginágreiningurinn í stjórnmálunum í dag. Á að halda áfram að láta þá sem hafa það best og hafa mest úr að spila fá meiri peninga frá ríkinu í formi skattalækkana eða á að nota það fé til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja? Um þetta hafa deilurnar á Alþingi snúist síðustu þrjár vikur.