145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf spurning hvernig á að fara með hlutina í virðisaukakerfinu og lagfæringar sem menn telja sig stundum vera að gera til að gera skilvirkni greiðslna meiri eru auðvitað mikilvægar. Ég held að aðalatriðið sé að koma vel til móts við þá sem þurfa til dæmis mikið af lyfjum og annað slíkt. Það er hægt að gera í gegnum kerfið, eins og við gerum reyndar í dag þótt ef til vill þurfi mikið að laga það miðað við dæmið sem ég tók áðan.

Af því að hv. þingmaður vitnaði í hæstv. forsætisráðherra sem sagði að það þyrfti skynsemi við stjórn landsins — já, hana hefur alltaf þurft. En ég ætla að leyfa mér að halda því fram, virðulegi forseti, að sá ávinningur sem er að koma inn í íslenskt samfélag og við sjáum í fjárlagafrumvarpinu og fjáraukalögunum er ekki eingöngu vegna starfa og stefnu þessarar ríkisstjórnar. Við skulum aðeins rifja það upp að heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 70% (Forseti hringir.) á ekki löngum tíma, það er lág verðbólga, mjög mikið af ferðamönnum, metár hjá sjávarútveginum. Nú eru þau skilyrði fyrir hendi sem við sögðum í síðustu ríkisstjórn að mundu koma og þá ætti að skila til baka (Forseti hringir.) til aldraðra og öryrkja. Við það stöndum við.