145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[21:59]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að gagnsæi skiptir mjög miklu máli. Ég legg áherslu á að í meðförum nefndarinnar verði farið yfir hvort það sé nægjanlega tryggt. Það dregur úr áhyggjum. Þetta eru auðvitað eignir sem eru umfangsmiklar og geta skipt miklu um valdastöðu og ítök í íslensku efnahagslífi og skiptir miklu að menn viti með hvaða hætti þeim er ráðstafað.

Ég er ánægður með þá hugsun sem hér kemur fram um að fela Ríkisendurskoðun eftirlit með félaginu og tel það til bóta frekar en að þetta sé með beinni yfirstjórn Seðlabankans, bankaráðs eða ráðherra. Ég tel að það sé skynsamlegri aðferðafræði. Eins og ég skil þetta mál felst í því að lagastoð verður þá traustari undir ESÍ, Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands, sem nú þegar er til og umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir við lagagrunninn fyrir. Ég vildi helst beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra annars vegar hvort það sé ekki réttur skilningur og hins vegar hvort ráðherra sé ekki tilbúinn til samráðs um það í þinglegri meðferð að við útfærum eftir atvikum upplýsingar og, alveg rétt, eins og ráðherrann segir, auðvitað er það ekki um annað en ráðstöfun eignanna og hvernig þeim er ráðstafað, það gagnsæisferli sem þyrfti að útbúa til þingsins til að allt væri uppi á borðum, því að ég held að það sé hagur fyrir alla að sú umgjörð sé eins góð og vel unnin strax í upphafi.