145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun koma nánar að þessu í ræðu minni á eftir en ég er í sjálfu sér ekki ósammála því að það gæti verið æskilegt markmið að dagskrárgerðarsjóður fjármagnaði innlenda dagskrárgerð fyrir allar stöðvar. Við erum þó með Ríkisútvarpið og sérstakt útvarpsgjald. Ég hjó eftir því áðan að formaður nefndarinnar sagði að hún sæi fyrir sér að tekið yrði af þessu útvarpsgjaldi til að fjármagna þennan sjóð. Þar sem allt hnígur í sömu átt þykir mér sem bæði skilyrðin sem sett eru fyrir þessari fjárveitingu og þessar framtíðarhugrenningar muni draga úr getu Ríkisútvarpsins sjálfs til að framleiða innlent dagskrárefni. Um þetta hefur verið deilt árum og áratugum saman. Ég hef verið mjög efasemdafullur og andvígur (Forseti hringir.) tilraunum til að draga úr framleiðslugetu Ríkisútvarpsins sjálfs.