145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mikið gæfuspor var stigið 2010 þegar við gengum frá samkomulagi við sveitarfélögin um flutning á þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna. Það var gríðarlega vel undirbúin yfirfærsla, vel fjármögnuð og ávallt gert ráð fyrir því að eftir reynslutímann yrði farið yfir reynsluna og hin endanlega fjármögnun fínstillt.

Ég ætla að hrósa þeirri ríkisstjórn sem nú situr fyrir að hafa gengið til samninga við sveitarfélögin um frágang þessa mikilvæga verkefnis og að nú skuli vera búið að afmarka tekjustofnana sem þarf til að þessi mikilvæga þjónusta geti gengið fullnægjandi fram. Það er mikið fagnaðarefni og ég tek með gleði þátt í að greiða þessari tillögu atkvæði.