145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti eftir því við lok umræðunnar áðan að við reyndum að haga málum þannig við afgreiðslu fjárlaga að hún gengi betur fyrir sig. Ein leið er kannski sú að áætla rétt fyrir þörfum Landspítalans því að síðustu þrjú haustin, þetta meðtalið, hefur ríkisstjórnin lagt fram fjárlagafrumvarp sem yfirstjórn Landspítalans hefur lýst yfir að muni valda neyðarástandi á spítalanum. Verkefni okkar í stjórnarandstöðunni hefur verið að vinda ofan af vitleysunni allt haustið.

Þessir peningar eru ekki nóg og þess vegna greiðum við ekki atkvæði með þessari tillögu. Við höfum þó sýnt í verki stuðning okkar við frekari fjármögnun með því að halda þessum kröfum á lofti úr ræðustól Alþingis. Þessir fjármunir voru ekki í boði fyrir þremur vikum og ekki í boði fyrir tveimur vikum og ekki í boði fyrir viku.

Hér sjáum við hins vegar árangurinn af baráttu okkar, ekki samt bara okkar í þinginu. Okkur hefur tekist að láta stjórnarmeirihlutann skammast sín að ákveðnu leyti en við þökkum líka og fögnum (Forseti hringir.) hinum víðtæka stuðningi í samfélaginu við að alvörufé sé lagt í heilbrigðismálin. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Segir Samfylkingin já?)