145. löggjafarþing — 62. fundur,  19. des. 2015.

jólakveðjur.

[19:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í nafni okkar alþingismanna þakka ég forseta Alþingis kærlega fyrir gott samstarf á þessu haustþingi. Ég vil færa honum sérstakar þakkir fyrir gott og náið samstarf við okkur þingflokksformenn. Við munum minnast þessa haustþings fyrir sakir sextugsafmælis forsetans og ýmissa annarra góðra minninga sem við förum heim með frá því.

Haustþingið hefur um sumt einkennt skortur á málum en þó höfum við í nokkrum málum náð góðri samstöðu þvert á alla flokka og er frumvarp um ríkisborgararétt sem varð að lögum á síðasta fundi haustþingsins gott dæmi um það.

Haustþingið einkennist jafnan mjög af fjárlagavinnunni og því miður hafa áætlanir um hana ekki gengið eftir og starfsáætlun gengið algjörlega úr skorðum. Í kjölfar þess hafa orðið í þinghaldinu ýmsar þær uppákomur sem ekki hafa orðið til að auka traust á þinginu eða virðingu þess. Ég legg áherslu á að við notum nýjan dag og nýtt ár til að taka höndum saman og fara í þá gagngeru endurskoðun á skipulagi okkar og starfsháttum sem við þurfum að ráðast í svo þessi skuggi þurfi ekki að liggja yfir því góða starfi sem hér er unnið.

Fyrir hönd okkar alþingismanna færi ég forseta Alþingis og fjölskyldu hans bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári. Ég vil líka nota tækifærið og þakka starfsfólki Alþingi kærlega fyrir gott samstarf og ómetanlega aðstoð við okkur í vinnslu þingmála og öll þau störf sem hér eru innt af hendi. Ég vil líka færa fjölskyldum þeirra bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Ég bið alþingismenn um að taka undir jólaóskir og nýárskveðjur til forseta Alþingis, starfsmanna og fjölskyldna þeirra með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

Gleðileg jól.