145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög mikið umhugsunarefni að nota frelsishugtakið í þessu máli. Frelsi hverra og til hvers? Frelsi einkarekinnar verslunar til þess að fá að græða á því að selja áfengi? Er það frelsi mönnum svona hjartfólgið? Snýst þetta virkilega um það? Þetta frumvarp er engin málamiðlun, hv. þingmaður. Það fer alla leið. Það eru engar sérstakar takmarkanir sem hægt er að segja að nái máli í þeim efnum þegar gert er ráð fyrir því að áfengi geti farið inn í matvörubúðir og rauðvínsrekkarnir geti verið við hliðina á kjötborðinu o.s.frv., sterkt áfengi þar með talið. Ef við værum að ræða á þeim nótum að við værum sammála um það hvernig við vildum takmarka aðgengi að áfengi og vildum gera það svona og svona og værum að ræða síðan fyrirkomulag út frá því, þá værum við nær því að vera að tala sama tungumál, en það erum við ekki í dag af því ég les í frumvarpið að það er grundvallarágreiningur um hvort það að takmarka aðgang að áfengi skipti máli eða ekki.