145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á fjölda rannsókna sem styðja allar að við eigum ekki að taka það skref að fara með áfengi í verslanir.

Í dag kom út skýrsla frá UNICEF um efnahagslegan skort barna á Íslandi. Mig langar aðeins út frá hagsmunum barna að spyrja hv. þingmann út í hvernig honum þyki frumvarpið samræmast barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem við erum að tala um að hagsmunir barna séu alltaf hafðir í fyrirrúmi varðandi allar ákvarðanatökur. Við deilum held ég ekkert um það að aukið aðgengi að áfengi eykur neysluna. Þau börn sem eiga foreldra sem eru veikir fyrir áfengi og eru veikasti hópurinn sem við höfum mörg hver áhyggjur af ef áfengi verður komið inn í almennar matvöruverslanir, þar sem hvert og eitt okkar þarf að versla sína matvöru og kemst ekkert hjá því, munu kvíða fyrir því að fara reglulega inn í slíkar matvöruverslanir með foreldri sem er veikt fyrir áfengi og hafa áfengi fyrir augunum. Þetta gæti haft miklar afleiðingar fyrir vanlíðan barna almennt, svo mikið og aukið aðgengi sem mundi fylgja því að afnema einkarétt ríkisins og færa áfengi inn í almennar matvöruverslanir, eins og er verið að boða hér.

Mig langaði að heyra aðeins viðhorf hv. þingmanns gagnvart þessu.