145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Framkvæmdastjóri Haga sagði líka þegar hann opnaði sig núna fyrir nokkrum dögum eða klukkustundum að hann væri fylgjandi takmörkunum. Þeir biðu eftir að ríkið setti takmarkanir. Þær takmarkanir munu vera í þágu stóru verslunarkeðjanna sem allar óska eftir því að frumvarpið nái fram að ganga.

Allir umsagnaraðilar um frumvarpið eru því andvígir, nema hagsmunaaðilar í verslun. Það er staðreyndin í málinu. Þegar æskulýðssamtök, forvarnaaðilar, íþróttahreyfingin, ungmennasamtök, félög lækna, heilbrigðisstétta, landlæknisembættið, biðja okkur um að hafna frumvarpinu, eigum við virkilega ekki að hlusta á þá aðila? Ef það er rétt sem hv. þingmaður sagði að hann hefði ekki farið út í stjórnmál út af þessu frumvarpi og þetta væri ekki stórmál í hans huga, en ef þetta er vilji þessara aðila, eigum við ekki að taka tillit til þess og fara að þeim vilja? Sýna fólkinu þá virðingu?