145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil að það komi fram fyrst af öllu að mér finnst nauðsynlegt að þetta mál fái sína þinglegu meðferð eins og öll önnur þingmannamál, en það vill svo til að ekki fá öll önnur þingmannamál sína þinglegu meðferð. Ég vil því skora á forseta að ef þetta mál fær þinglega meðferð eins og lítur út fyrir, eigi hið sama við um mál annarra þingmanna, ekki bara þetta mál sem hefur tekið upp óheyrilega mikinn tíma á þinginu. Ég ætla því ekki að hafa mjög langa ræðu þó svo að ég sé að tjá mig um málið í fyrsta skipti núna á þessu þingi.

Píratar leggja mikla áherslu á að taka upplýstar ákvarðanir og í ljósi þess finnst mér vert að lesa minnisblað læknis til alþingismanna sem kom til okkar í gær eftir Svan Sigurbjörnsson, lækni og sérfræðing í lyflækningum og klínískri eiturefnafræði. Ég ætla að vinda mér í það að lesa þetta minnisblað, með leyfi forseta:

„Á að breyta áfengislöggjöfinni? Pólitísk ákvörðun. Minnisblað læknis til alþingismanna vegna frumvarps um rýmkun laga um verslun með áfengi.

Í vel ígrundaðri pólitískri ákvörðun koma einkum þrír þættir inni í ákvörðunarferlið: Hver er þekkingarþátturinn? Hvernig á að meta viljaþáttinn (vilji þjóðarinnar)? Hvaða siðferðilegu meginlögmál koma til álita þegar málið er ígrundað?

Þekkingarþátturinn er eftirfarandi samkvæmt fjölmörgum rannsóknum:

Aukið framboð á áfengi þýðir aukin neysla áfengis í heildina. Eftir að bjórinn var leyfður 1989 og barir opnuðu víða í kjölfarið ásamt aukinni neyslu léttvíns fór neysla áfengis úr 4,3 lítrum á íbúa árið 1980 í 7,5 lítra á íbúa árið 2007. Rannsóknir sýna að einkavæðing sölunnar eykur enn á neysluna. Það þýðir að dagdrykkja mun aukast sem eykur fjölda fólks með áfengissýki (alkóhólisma) og fjölda áfengissjúkra með langvinn heilsufarsvandamál eins og:

Skorpulifur, leiðir oft til dauða. Þarfnast lifrarígræðslu. Sást sjaldan á árum bjórbannsins (fyrir 1989) sem var einstakt í heiminum. Tíðni hefur aukist úr 9,9 í 41,7 tilvik árlega (á 300 þús. manns) frá síðari hluta 10. áratugarins til ársins 2007. Heilarýrnun, skert vitræn geta og minni. Tauga- og vöðvaskemmdir, föll, brot, örorka. Langvinn geðræn vandamál. Áfengistengd krabbamein (í munni, koki, vélinda, barka, lifur, ristli, brjóstum og brisi). Brisbólgur (bæði bráðar og langvinnar. Áfengi algengasta orsökin).

Eykur fjölda veikindadaga frá vinnu og fjölda fólks á örorku, fjölda brotinna fjölskyldna og vanrækslu barna, fjölda þeirra sem leiðast út í önnur fíkniefni, fjölda þeirra sem leggjast inn á bráðamóttöku LSH vegna bráðrar áfengiseitrunar, fjölda tilvika þar sem áfengi er þáttur í sjálfsvígstilraunum? (með í um 50% tilvika), fjölda óhappa og slysa (öðrum en vegna aksturs). Eignaskemmdir.

Aukinn fjöldi tilvika drykkju við akstur. Aukinn fjöldi bílslysa vegna áfengis. Fötlun og dauði. Eignaskemmdir.

Fleiri áfengisfíklar falli í bindindi og eigi styttri pásur en ella?

Aukið ofbeldi í þjóðfélaginu. Heimilisofbeldi, sérstaklega hið kynbundna og andlegt ofbeldi. Tilhæfulausar árásir á vegfarendur (mikið vandamál í miðbæ Reykjavíkur þar sem vínveitingastaðir eru flestir). Kynferðisofbeldi.

Aukin útbreiðsla kynsjúkdóma, sérstaklega meðal ungs fólks. Fósturskemmdir (e. fetal alcohol syndrome) og aukinn fjöldi snemmfæðinga.

Samlegðaráhrif alls að ofan leiða til stóraukins kostnaðar fyrir ríkið (heilbrigðiskerfið) og aukins álags á bráðaþjónustu, legudeildir, löggæslu og félagslega kerfið.

Aukin unglingadrykkja? Einkageirinn myndi líklega auglýsa meira og fegra áfengisneysluna. Líklega ósérhæfðari og lélegri þjónusta í heildina við sölu áfengis. Góð fræðslustarfsemi og forvarnastarf ÁTVR legðist af. Mögulega minna vöruúrval af öðrum vörum í 24-búðum með takmarkaðan vörufjölda. Betra aðgengi að áfengi á höfuðborgarsvæðinu og stærstu bæjum en ekki endilega á landsbyggðinni þar sem litlar búðir myndu ekki bera sig. Einkaaðilar fengju hinn mikla gróða af áfengissölunni í stað þess að ríkið noti hann í heilbrigðiskerfið. Hækkun prósentu í forvarnir dygði skammt. Alls kyns áhrif á verslun og viðskipti, sjá greinargerð með frumvarpi.“

Þá erum við komin að viljaþættinum.

„Hvernig á að meta vilja þjóðarinnar? Fyrst að finna hver hann er. Líta á skoðanakannanir. Hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið sem væri ráðgefandi fyrir Alþingi. Halda vel undirbúna þjóðfundi, t.d. samkvæmt módeli Fiskins (nokkurra daga þing). Meta hvað eigi að gera við viljann. Það er ekki víst að hann endurspegli upplýsta ákvörðun, sérstaklega ef umræða fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæði væri lítil og illa undirbúin, eða ef um óformlega könnun væri að ræða án rökræðu á undan. Ef þekkingarhlutinn leiðir í ljós að veruleg verðmæti kynnu að skaðast við rýmkun áfengislaganna er ekki víst að vilji meiri hluta í nafni aukins sjálfræðis ætti að gilda. Hins vegar ætti þjóð að hafa frelsi til að velja fyrir sig þó að hún leggi sig í hættu. Mikilvægt að rökræðuferli fái að njóta sín fyrir atkvæðagreiðslu, annars er erfitt að sættast við almannavilja sem leggur í heilsufarslega hættu til að auka frjálsræði þeirra sem drekka áfengi og verslunarfrelsi kaupmanna.“

Að lokum er það siðferðilegi þátturinn, meginlögmálin.

„Einstaklingsfrelsi. Eru það mannréttindi að vera frjáls undan afskiptum ríkisins gagnvart sölu á áfengi? Er ríkið að skerða óeðlilega neikvæða frelsið (frjálsræðið)?

Verslunarfrelsi. Meira frelsi til að versla áfengi, en mögulega skert vöruúrval annarra vara í litlum búðum (það selt sem selst best).

Verndun barna — hvað segir það börnum um eðli áfengis að það sé í öllum matvörubúðum?

Verndun áfengissjúkra. Með því að hafa ákveðið aðhald og þrengja neikvæða frelsið (í núverandi mynd) eykst jákvæða frelsið, þ.e. vald þeirra yfir eigin gjörðum og farsæld.

Þjóðfélagsleg skilaboð um áfengi til allra — aukið framboð normalíserar áfengisnotkun.

Hvað ákveður þú kæri alþingismaður?

Niðurstaða mín er skýr: Áfengislögin á ekki að rýmka. Óþægindi sumra vegna skerts verslunarfrelsis í núverandi fyrirkomulagi eru ásættanleg miðað við þau umfangsmiklu neikvæðu áhrif sem aukin áfengisneysla hefði í för með sér í kjölfar aukins framboðs. Skerðing á þessu ytra/neikvæða frelsi veitir fullt af fólki meira innra/jákvætt frelsi yfir lífi sínu og heilsu. Áfengi er ekki matvara og meðalhóf þess er vandratað. Ríkið hefur mikil tækifæri til að hafa áhrif á heilsu þjóðarinnar. Við þurfum ekki að kalla yfir okkur frekari heilsufarsvandamál með auknu verslunarfrelsi sem er ekki aðkallandi breyting. Neysla og sala áfengis kallar á gott jafnvægi frelsis og varúðar sem er nú til staðar og er óvarlegt að raska.“

Undir þetta ritar Svanur Sigurbjörnsson. Hef ég þá lokið lestri á minnisblaði hans sem mér finnst athyglisvert og ég brýni fyrir þingmönnum að þeir kynni sér mjög vel þær umsagnir sem komu um málið til allsherjarnefndar. Mér finnst sláandi að þær umsagnir sem koma frá þeim sem þekkja mjög vel til þessa málaflokks er varðar heilsu, hvort sem hún er andleg eða líkamleg, eru allar á einn veg.

Ég verð að segja að ég hef séð þann mikla skaða sem áfengissýki eða alkóhólismi getur valdið fjölskyldum. Það er eiginlega ekki hægt að setja það í tölfræði. Það sem börn og makar ganga oft í gegnum er svo skelfilegt og niðurbrotið er svo rosalegt að það tekur kannski heila mannsævi að vinna úr þeim skaða. Ég get ekki lagt kalt mat á það hvort það verði mikil aukning í áfengisneyslu eða ekki, fyrr en það er reynt, en ég verð að segja að þær upplýsingar sem liggja fyrir um hvernig þessir hlutir þróast í öðrum löndum hljóta að vera okkur mikið umhugsunarefni.

Þá vil ég líka segja að ég hef búið víða um heim og m.a. í Danmörku sem við miðum okkur við. Ég hef nú oft kallað Dani eða þeirra samfélag eins og það sé marinerað í áfengi af því að áfengiskúltúrinn þar er svo gegnumgangandi. Nú hef ég ekki búið í Kaupmannahöfn, en ég bjó á nokkrum stöðum úti á landi. Þar var kúltúrinn sá að það var alltaf náð í bjórkassa, alveg sama hvort það var lítil eða stór verslun, að fá sér bjór og Gammel Dansk var samofið hversdagslífinu. Ég verð að segja að fólk verður harla óþægilegt þegar það er búið að drekka marga Tuborg þótt áfengishlutfallið í þeim sé ekki hátt. Ég hef líka tekið eftir því og tók eftir því úti í Danmörku og víðar að þar sem áfengi er í matvöruverslunum eins og þar, og náttúrlega alls staðar, það er mjög gott aðgengi í Danmörku að áfengi, að vöruúrvalið var ömurlegt, alveg gjörsamlega ömurlegt.

Við verðum að horfast í augu við að aðgengi að áfengi er nú þegar mjög gott á Íslandi. Það eru miklar takmarkanir í þessu frumvarpi varðandi opnunartíma og ég sé ekki að það breyti miklu ef það verður að lögum. Ég hefði viljað, ef veita á heimild til að selja áfengi í matvöruverslunum, að það yrði ekki á kostnað ÁTVR, einfaldlega af því að ÁTVR er alltaf að efla þjónustu sína á landsbyggðinni. Það hefur gerst þannig að þegar er verið að sameina eða samþætta sveitarfélög fer mikið af grunnþjónustunni úr smæstu byggðunum yfir í einn kjarna. Maður þarf ekki að fara lengra en bara yfir heiðina til þess að sjá það í verki, t.d. hvað gerðist þegar Stokkseyri og Eyrarbakki sameinuðust Selfossi. Mér finnst þetta mál vera þess eðlis að mörgu leyti að það sé vanhugsað og geldur þess svolítið að vera unnið þannig að það er ekki hugsað til langs tíma.

Ég mun því ekki styðja málið nema hv. þingmaður sem lagði það fram byrji bara sjálfur að drekka. En að öllu gamni slepptu held ég að ég sjái ekkert því til fyrirstöðu að málið verði leitt til lykta í atkvæðagreiðslu hér á Alþingi. Mér finnst mjög óvíst að málið klárist alla leið, en hinn lýðræðislegi vilji á Alþingi þarf að koma fram. Mér finnst það mikilvægt. Ég get ekki verið ósamkvæm sjálfri mér og þó svo að ég sé ekki hlynnt einhverju máli vil ég ekki standa í vegi fyrir því að það fái sína efnislegu og endanlegu meðferð í þingsal. Að því sögðu fer ég fram á, ef sú verður raunin með þetta mál, að önnur mál með sambærilegri vigt og þetta, því það mun hafa gríðarlega mikil samfélagsleg áhrif, fái eðlilega meðferð á þinginu. Mér finnst við ekki geta klárað málið fyrr en við fáum vilyrði fyrir því frá forseta þingsins að svo verði raunin fyrir þingmenn allra flokka.