145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mun seint halda því fram að það sé ekki vandasamt að selja banka, einkavæða banka. Ég held að við Íslendingar séum með ansi bitra reynslu af því verkefni. Við ættum að geta lært af því að mikilvægt er að flýta sér ekki um of, hlusta á öll sjónarmið og gera það faglega. Í stuttu máli sýnist mér vera töluverður aðdragandi að þeim áformum að selja þennan takmarkaða eignarhlut, þ.e. upp undir 30% hlut ríkisins í Landsbankanum. Ég styð að það verði gert með faglegum hætti. Ég held að við getum líka dregið lærdóm af því hvernig það tekst til.

Að því sögðu að maður verður að horfast í augu við að þetta er ekki einfalt mál þá vil ég líka segja það alveg skýrt að ég tel ekki skynsamlegt að ríkið eigi banka. Það getur verið skynsamlegt að eiga takmarkaðan hlut í fjármálakerfinu, en ég tel ekki skynsamlegt að ríkið standi í bankarekstri. Mér fannst slæm reynsla af því þegar ríkisvaldið rak bankana á Íslandi. Það var grasserandi pólitísk spilling í því kerfi. Ég held að eignarhald ríkisins í fjármálakerfi bjóði upp á slíka spillingu. Ég held líka að bankarekstur sé of áhættusamur til að réttlætanlegt sé að ríkið fari með ráðandi eignarhlut í fjármálakerfinu. Ég held að það hefði verið mjög slæmt ef ríkið hefði átt bankana sem fóru á hausinn hérna 2008. Það bauð einmitt upp á möguleika í endurreisn fjármálakerfisins að ríkið átti ekki bankana. Það er stundum sagt að ríkið taki bara tapið þegar fjármálakerfi fer á hliðina, en það er ekki alveg rétt. Það var hægt að fara inn í fjármálakerfið og endurreisa bankana með eigin fé sem var tekið að láni. Það var alltaf gert ráð fyrir að selja hlutina og borga upp þau lán, en það voru líka teknar yfir eigur á móti og ríkið tók yfir eigur til þess að tryggja (Forseti hringir.) að það fengi til baka framlag sitt. Ég held að reynslan sé að sýna (Forseti hringir.) að yfir tíma, þó að áfallið hafi verið mikið sé ríkisvaldið að koma út í plús í krónum og aurum vegna þess að eigurnar hafa vaxið svo í verði.