145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

heilbrigðiskerfið.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að lesa skýrt og skilmerkilega upp þessa færslu sem er þó ekki andsvar eins og hv. þingmaður lýsti því heldur eins og þeir heyrðu sem hlýddu á lesturinn miklu frekar jákvæð ábending um mikilvægi þess að menn hugi að réttum atriðum þegar þeir vinna saman að því að efla heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Hvernig hyggjumst við bregðast við stöðu mála í heilbrigðismálum? spurði hv. þingmaður. Við erum að því eins og ég lýsti því hér áðan með gríðarlega mikilli aukningu fjárveitinga til heilbrigðismála á sama tíma og við erum að passa okkur á því að reka ekki ríkið með halla og auka ekki á skuldir ríkisins þannig að við getum jafnt og þétt til langrar framtíðar haldið áfram að bæta í heilbrigðismálin.

Hvernig ætlum við að auka verðmætasköpun í landinu? Það gerum við meðal annars með því að reka arðbærar atvinnugreinar, atvinnugreinar sem virka og skila tekjum í þjóðarbúið eins og sjávarútveg, með því að halda áfram uppbyggingu nýrra greina. Þess vegna er alveg sérlega ánægjulegt að sjá að menn eru að uppgötva að áherslur ríkisstjórnarinnar varðandi nýsköpun eru byrjaðar að skila sér í fjölgun starfa í þeirri grein, stofnun nýrra fyrirtækja og mikilli nýsköpunarsókn sem við munum eflaust finna jákvæð áhrif af á næstu árum.

Svo skiptir auðvitað miklu máli að fjárfesta áfram í menntun. Slík fjárfesting skilar sér margfalt til baka eftir því sem fram líða stundir. Þess vegna hefur hæstv. menntamálaráðherra lagt kapp á það að börn og ungmenni fái þá fræðslu sem þau þurfa á að halda til þess að vera samkeppnishæf við ungmenni annarra landa og geta byggt upp verðmætasköpun á Íslandi til framtíðar.