145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

starfsmannaleigur og félagsleg undirboð.

390. mál
[15:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Forustumenn í verkalýðshreyfingunni, m.a. formaður Framsýnar, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna og forustumenn Alþýðusambandsins, hafa að undanförnu ítrekað bent á mörg alvarleg dæmi um ólögmæta starfsemi, um starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði sem eru ekki skráðir og njóta ekki réttinda, um starfsmannaleigur sem hér hafa starfað í landinu jafnvel frá árinu 2014 án þess að vera nokkurs staðar skráðar eða skila gjöldum eða standa skil á réttindum starfsmanna sinna. Félag vélstjóra og málmtæknimanna hefur til að mynda sýnt ráðningarsamning sem forustumenn þess telja að gangi nútímaþrælahaldi næst. Við höfum fengið fréttir af pólskum starfskonum á gistiheimili á Suðurlandi þar sem öll réttindi voru brotin. Okkur hlýtur öllum að vera umhugað um að á þessu verði tekið, ekki síst núna þegar vöxtur er í efnahagsstarfseminni og viðbúið að þörf verði á meiri mannafla, bæði í mannvirkjagerð þar sem þetta hefur verið sérstaklega áberandi og í ferðaþjónustunni þar sem þetta hefur því miður verið að færast í vöxt.

Forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa bent á að lagaramminn sé út af fyrir sig ágætur, þar sé margt skýrt, en sagt að eftirlitinu sé ábótavant, að Vinnumálastofnun sé ekki sniðinn stakkur þannig að hún geti haft það nauðsynlega eftirlit með þessari starfsemi sem við þurfum. Trúnaðarmenn hafa orðið áskynja um starfsmenn sem starfað hafa á Íslandi mánuðum saman án þess að njóta þeirra réttinda sem þeir eiga lögum samkvæmt.

Þess vegna hef ég beint fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra, sem talaði í byrjun október opinberlega um aðgerðir af sinni hálfu og síns ráðuneytis til þess að bregðast við þessu, um þær aðgerðir og hvort hún telji að eftirlit með starfsmannaleigum og innflutningi erlendra starfsmanna og störfum þeirra á íslenskum vinnumarkaði sé fullnægjandi. Hversu miklum fjármunum er varið í þetta eftirlit? Hversu margir starfsmenn eða stöðugildi hafa eftirlit með þeim þúsundum sem streyma væntanlega inn á íslenskan vinnumarkað á næstu missirum og árum af þessum sökum?