145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

starfsmannaleigur og félagsleg undirboð.

390. mál
[15:37]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að beina þessari fyrirspurn til mín, um starfsmannaleigur og félagslegt undirboð og það hvort ég telji eftirlit með starfsmannaleigum vera fullnægjandi.

Vinnumálastofnun hefur eftirlit með því að starfsmannaleigur og erlend fyrirtæki, sem senda starfsmenn sína hingað til lands í því skyni að veita hér þjónustu, fari að þeim lögum og reglum sem hér gilda um slíka starfsemi og falla undir málefnasvið stofnunarinnar. Við það eftirlit starfar stofnunin meðal annars samkvæmt lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, og lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja, sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.

Mér er kunnugt um að Vinnumálastofnun starfar í þessu sambandi náið með öðrum opinberum aðilum sem tengjast umræddu eftirliti, svo sem skattyfirvöldum og Vinnueftirliti ríkisins sem og aðilum vinnumarkaðarins. Hafa þessir aðilar meðal annars staðið að sameiginlegum eftirlitsheimsóknum á vinnustaði sem skilað hafa nokkrum árangri.

Ég tel að Vinnumálastofnun sinni umræddu eftirliti eins vel og henni er unnt á grundvelli þeirra heimilda sem hún hefur lögum samkvæmt og þeirra fjármuna sem ætlaðir eru til reksturs stofnunarinnar samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Ég tel hins vegar mikilvægt að allir þeir aðilar sem koma að eftirliti á vinnumarkaði, hvort sem um er að ræða opinbera aðila eða aðila vinnumarkaðarins, taki höndum saman þannig að sem best verði tryggt að þeir erlendu starfsmenn sem hingað koma, í því skyni að taka þátt á innlendum vinnumarkaði, njóti þeirra launa og starfskjara sem launa- og kjarasamningar hér á landi gera ráð fyrir.

Ég sem ráðherra hef ekki heimild að lögum til að grípa til beinna aðgerða gegn félagslegum undirboðum, en ég tel mjög mikilvægt að tryggt sé að félagsleg undirboð viðgangist ekki á íslenskum vinnumarkaði. Um það tel ég okkur öll, sem sitjum hér í þessum sal, geta verið sammála. Ég treysti þeim aðilum sem fengið hafa það hlutverk að uppræta félagsleg undirboð og jafnframt að mér verði gert viðvart þurfi að koma til frekari heimilda þannig að umræddir aðilar geti sinnt störfum sínum svo viðunandi sé. Ég hef þannig þegar óskað eftir að skoðað verði hvort og þá með hvaða hætti rétt sé að gera breytingar á þeim lögum sem falla undir málefnasvið mitt að þessu leyti, svo sem hvað varðar heimildir Vinnumálastofnunar til eftirlits sem og aðgerða þegar þurfa þykir. Þá legg ég eftir sem áður áherslu á samstarf ráðuneytisins við Vinnumálastofnun, skattyfirvöld, aðila vinnumarkaðarins og aðra aðila sem koma að umræddu eftirliti á vinnumarkaði. Að öðrum kosti náum við ekki árangri.

Að því er varðar þá fjármuni sem varið er til eftirlits með félagslegum undirboðum og hversu mörg stöðugildi þurfi til að sinna því hef ég fengið þær upplýsingar frá forstjóra Vinnumálastofnunar að hjá stofnuninni starfi tveir starfsmenn sem sinni meðal annars eftirliti með starfsmannaleigum og erlendum fyrirtækjum er senda starfsmenn sína hingað til lands í því skyni að veita hér þjónustu. Hvort það er nægilegt eða ekki verður tíminn að leiða í ljós og fer það ekki síst eftir þróuninni hvað varðar fjölda erlendra starfsmanna á vinnumarkaði. Mér þykir þó ekki ólíklegt að fjölga verði þeim starfsmönnum Vinnumálastofnunar sem sinna umræddu eftirliti haldi áfram sem horfir á vinnumarkaði, sérstaklega í tengslum við aukinn fjölda erlendra starfsmanna við byggingar og mannvirkjagerð sem og í tengslum við veitingu þjónustu við ferðamenn sem hingað koma. Í því sambandi bendi ég á að í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar, um stöðu og horfur á vinnumarkaði á árinu 2016–2018, gerir stofnunin meðal annars ráð fyrir að erlendir ríkisborgarar á vinnumarkaði hérlendis verði orðnir um 19.700 á árinu 2018 og hafi þannig fjölgað um 2.000 manns frá því sem var á árinu 2015.

Ég tel mig geta fullyrt hér að opinberir aðilar ætla, vilja og eru að standa vaktina ásamt aðilum vinnumarkaðarins um að hér sé farið að gildandi lögum og kjarasamningum á innlendum vinnumarkaði. Þar skiptir samstarf við aðila vinnumarkaðarins mjög miklu máli. Það er okkur jafnframt mikið kappsmál að fyrirtæki sem starfa hér á landi sjái hag sínum betur borgið með að virða þá kjarasamninga og þau lög sem í gildi eru fremur en að fara í kringum þær reglur sem samið hefur verið um þannig að ekki þurfi að reyna á þær eftirlitsheimildir sem framangreindir aðilar hafa. Þegar öllu er á botninn hvolft hlýtur það að vera vænlegast til árangurs fyrir alla aðila og þá ekki hvað síst hagkvæmast þegar til lengri tíma er litið, bæði faglega og fjárhagslega.